Fréttir

Allt að smella saman - segir Guðrún Brá eftir góða frammistöðu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 25. september 2024 kl. 13:43

Allt að smella saman - segir Guðrún Brá eftir góða frammistöðu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili hefur stokkið upp stigalistann á LET Access mótaröðinni í Evrópu eftir að hafa verið í 4. sæti í tveimur síðustu mótum sem hún tók þátt í. Hún segir ýmislegt koma til.

„Já, bara loksins er allt að smella saman það sem ég og þjálfarinn minn Nökkvi Gunnarsson erum búin að vera að vinna í. Það er rosalega góð tilfinning að geta farið út á golfvöll, treyst því og verið í góðu flæði. Svo hef ég mikið verið að vinna í því að láta mér líða vel út á golfvelli.“

Nú ertu búinn að vera undanfarin ár að keppa, er reynslan ekki að koma eitthvað inn?

„Jú vissulega kemur reynsla inn í þetta líka. Ég er komin með mikla þekkingu á mínum leik og því sem èg er að gera. Komin með góða rútínu í kringum ferðlögin, undirbúninginn og allt sem kemur að mótunum.

Bróðir minn var með með bæði í Frakklandi og í Sviss og það hjálpaði líka rosalega mikið að hafa einhvern með mér sem ég treysti fullkomnlega. Ég vil komast aftur á Evrópumótaöðina með þeim bestu og þar finnst mér ég heima,“ sagði Guðrún Brá en hún á eftir að keppa á einu móti sem verður í byrjun október en síðan keppir hún á 2. stigi úrtökumóta fyrir LET Evrópumótaröðina í desember. Hún var með þátttökurétt þar fyrir tveimur árum og stefnir þangað aftur.

Guðrún endaði í 19. sæti stigalistans en 32 efstu komast beint á seinna stig úrtökumótanna. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR keppir á sömu mótaröð og endaði í 80. sæti og þarf að fara á fyrra stig úrtökumótanna.