Kylfukast

Kylfukast: Reiðhjól framkvæmdastjórans
Frá Orange County golfvellinum í Orlando sem Margeir vitnar til.
Fimmtudagur 5. nóvember 2015 kl. 14:10

Kylfukast: Reiðhjól framkvæmdastjórans

Golfíþróttin og Tiger Woods eiga það sameiginlegt að vera búin að týna sveiflunni. Þegar það gerist er nauðsynlegt að finna hana aftur.

Golf virðist lifa góðu lífi meðal ríkra einstaklinga sem eru tilbúnir að greiða vallargjöld frá $150 og uppúr. Donald nokkur Trump fer fremstur í flokki að bjóða uppá aðstöðu í þessum verðflokki í heiminum. Kaup hans á Doral svæðinu á Miami og hinu stórkostlega Turnberry svæði í Skotlandi eru til marks um það.

Hérlendis sem og annars staðar á íþróttin við vaxandi samkeppni að etja frá öðrum tegundum útivistar. Fátt ber því gleggra vitni en þegar framkvæmdastjóri golfklúbbs fær reiðhjól í afmælisgjöf.

Golfþing GSÍ verður haldið eftir rétt rúmar tvær vikur. Þar koma fulltrúar allra golfklúbba landsins saman í fyrsta skipti í tvö ár. Miðað við undanfarin Golfþing mun mestur hluti tímans fara í kaffidrykkju og rifrildi um niðurröðun golfmóta á velli. Það er alltaf best að sleppa erfiðu málunum. Tilvistarkreppunni. Það er allt í góðu lagi.

Ég fór í vikugolfferð í október með fimmtán frábærum náungum. Þeir voru á öllum getustigum íþróttarinnar með forgjöf frá tveimur til tuttugu. Við dvöldum á stað í Orlando sem ég heimsótti fyrst 2001, Orange County National. Íslenska landsliðið fór þangað í æfingabúðir á sínum tíma. OCN má muna sinn fífil fegurri. Engin ástæða var til að kvarta undan flötum, brautum, teigum eða röffi. En fyrir mann sem lék golf á svæðinu þegar það var uppá sitt besta var heimsóknin sláandi. Kreppan í golfinu starir beint framan í mann. Blómabeð horfin, ódýrari sandur í glompum, engin gps tæki í golfbílum, gisting á svæðinu sem einu sinni var frábær orðin verulega þreytt. Umsjónarmaður svæðisins benti þó stoltur á að þeim gengi vel. Það væri eingöngu vegna þess að í febrúar og mars væru seld 5-600 vallargjöld á dag á $150 stykkið. Fyrir þær tekjur sem dregnar væru inn á þessu tímabili væri svæðið rekið allan ársins hring.

Þegar rýnt er í tölur í golfhreyfingunni er ljóst að uppistaða golfiðkenda hér á landi er fólk á aldrinum 45-70 ára. Nýliðun á síðastliðnum 5-6 árum hefur verið í lágmarki. Við lesum nú fréttir af því í fjölmiðlum á Íslandi að golfvöllum er lokað vegna ónógrar aðsóknar. Við lesum líka fréttir af því að tekjur sundlauga frá notendum duga aðeins fyrir um 45% rekstrarkostnaðar.  Restin kemur frá sveitarfélögunum. Á sama tíma þurfa golfklúbbar einir íþróttafélaga að afla tekna fyrir öllum rekstarkostnaði frá félagsmönnum og styrktaraðilum.  Bara af því að svoleiðis hefur það alltaf verið. Leggja á reiðhjólastíga í höfuðborginni fyrir um 300 milljónir á næstu árum í nafni betri samgangna.

Það er löngu kominn tími til breytinga. Að óbreyttu mun rekstrarkostnaður golfklúbbanna lenda á færri félagsmönnum sem verða að greiða hærri gjöld. Sparnaður í viðhaldi mun skila okkur lakari völlum. Golf á Íslandi verður eingöngu fyrir útvalda.
Haldi þróun undanfarinna ára áfram á sama máta eru ekki nema tvö Golfþing þangað til komið verður í veruleg óefni. Rekstrargrundvöllur fjölmargra golfklúbba er í hættu.

Um þetta á að fjalla á Golfþingi og ekkert annað.

Annars er gott að geta hjólað hratt í burtu.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson.