Kylfukast

Kylfukast: Triplebogey
Mánudagur 2. nóvember 2020 kl. 09:23

Kylfukast: Triplebogey

Íslenska golfsumrinu 2020 lauk formlega á síðasta degi októbermánaðar. Venjulega hefðu það þótt merkisfréttir og kylfingar unað glaðir við.

Að þessu sinni vildi því miður svo illa til að þeir síðustu voru leiddir af golfvellinum í lögreglufylgd. Það segir margt um ritsmíðar sóttvarnarlæknis að nokkra daga þurfi í túlkanir í hvert sinn sem hann sendir frá sér minnisblað. Full harkalegt er að lögregla skuli vera kölluð til þegar annars löghlýðnir borgarar ákveða að skemma góðan göngutúr með því að eltast við lítinn hvítan bolta á sama tíma og sóttvarnaryfirvöld hvetja til útivistar.

Við golfhreyfingunni blasir nú mikill vandi. Túlkun triplebogeyanna er sú að skráningar í rástíma á golfvöllum flokkist undir skipulagt íþróttastarf. Þessi sama rástímaskráning var gerð að  skyldu til að leika mætti golf á golfvöllum landsins í vor. Hún kom í veg fyrir hópamyndun.

Af hverju að hafa áhyggjur af þessu núna? Það er vegna þess að forsætisráðherra mat það svo að við værum komin hálfa leið í baráttunni við Covid. Við eigum því eftir a.m.k. aðra 7-9 mánuði. Því liggur golfsumarið 2021 undir.

Hvað eru margir golfarar tilbúnir að fyrirframgreiða árgjöld fyrir árið 2021, þegar ekki er einu sinni víst að heimilt verði að leika golf?  Hvað eru margir golfklúbbar á Íslandi sem geta lifað eitt sumar án rekstrartekna? Þetta er spurning sem stjórnendur golfklúbba ættu að velta alvarlega fyrir sér því það er alveg klárt að ekkert er gefið í baráttunni við Covid. Fylgja svo golfklúbbarnir í kjölfar ferðaþjónustunnar? Við skulum vona ekki, en hættan er fyrir hendi, því sóttvarnir bera enga efnahagslega ábyrgð. 

Viðbrögð við málinu frá Golfsambandinu kæmu verulega á óvart. Við vöknum vonandi ekki upp við vondan draum í vor. Golfvelli án kylfinga.

Munið persónulegu sóttvarnirnar, þvo, spritta og 2 metrana. Það er mikilvægast af öllu í dag.

Með golfkveðju. 

Margeir Vilhjálmsson