Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Vestmannaeyjar bjóða kylfinga velkomna
Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 17. apríl 2025 kl. 07:00

Vestmannaeyjar bjóða kylfinga velkomna

„Það er hægt að gera frábæra dagsferð til Eyja þar sem bæði er leikið golf og notið alls þess sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða,“ segir Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja en Eyjan fagra græna getur stært sig af því að eiga einn fallegasta golfvöll veraldar. Undanfarin ár hefur aukist umferð kylfinga sem gera sér dagamun, bruna í Landeyjarhöfn og eru komnir á teig skömmu eftir að Herjólfur leggur við bryggju í Eyjum. Kylfingurinn getur verið kominn til baka á höfuðborgarsvæðið og sestur við matarborðið á kvöldmatstíma, eða ákveðið að skoða allt sem fyrir augu ber í Vestmannaeyjum, fengið sér dýrindis kvöldmat á einum af fjölmörgum frábærum veitingastöðum Vestmannaeyja, og tekið síðustu ferð Herjólfs til baka.

Kalli hefur stýrt málum Golfklúbbs Vestmannaeyja og er alltaf jafn ánægður þegar hann fær beiðni um að sækja kylfinga niður á höfn, þ.e. þegar bíllinn er skilinn eftir í Landeyjunum.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Þessi umferð kylfinga hefur aukist en ennþá er hellings pláss fyrir bætingu. Ég vil sjá völlinn okkar þéttbókaðan alla virka daga og leyfi mér nánast að fullyrða að kylfingar af höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar frá, geti ákveðið að bruna í Landeyjarhöfn og sigla með fyrstu ferð, og fá teigtíma nánast um leið og mætt er á golfvöllinn. Vestmannaeyjar hafa upp á svo margt að bjóða og ég leyfi mér að lofa frábærri dagsferð ef fólk getur ekki gist. Fyrsta sigling Herjólfs er kl. 8:15 frá Landeyjarhöfn og kylfingurinn getur verið kominn á teig skömmu síðar, er búinn upp úr hádegi og þá er allur dagurinn framundan. Hægt er að skoða eldgosasafnið okkar, fara í siglingu um Eyjuna, kíkt í sund og heitu pottana og endað á góðum kvöldverði á einum af fjölmörgum veitingastöðum sem við höfum upp á að bjóða. Siglt heim með síðustu ferð en svo getur kylfingurinn líka verið sestur við matarborðið heima hjá sér á kvöldmatartíma. Ég hvet kylfinga til að hafa okkur í huga í sumar, ég mun taka þeim fagnandi og sæki glaður niður á höfn.“

Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum hefur sjaldan komið eins vel undan vetri...
... og er orðinn iðagrænn.
Sumarflatir í Herjólfsdal

Eins og víðast annars staðar á Íslandi, var veturinn í Eyjum tiltölulega mildur og þrátt fyrir að sjór hafi flætt yfir bakkana og skilið eftir sig eitthvað af grjóti, hefur völlurinn sjaldan eða aldrei komið eins vel undan vetrinum.

„Við erum búnir að vera opnir inn á sumarflatir á flötum eitt til tólf síðan á föstudag í síðustu viku og ég á ekki von á öðru en við opnum hinar flatirnar fljótlega. Sjávarflatirnar líta mjög vel út og ég á ekki von á öðru en golfvöllurinn okkar muni skarta sínu fegursta í allt sumar. Í verstu óveðrunum í vetur flæddi yfir bakkana og eitthvað af grjóti varð eftir en við vorum ekki lengi að hreinsa það. 

Mótahaldið okkar verður með nokkuð svipuðu sniði, við erum með gríðarlega vinsæl mót eins og Icelandair Volcano open sem fer fram á Goslokahelginni, við erum með mjög vinsælt hjóna- og paramót en venjulega er orðið fullt í þessi mót ári síðar, um leið og mótinu er slitið! Við fáum oft fyrirspurnir um að halda Íslandsmót 35+ en þau mót eru haldin á vegum GSÍ og þeir stýra för. Þetta mót var haldið samhliða Íslandsmótinu en ég efast um að margir viti að Hlynur Geir hafi unnið síðasta titilinn, sennilega árið 2019. Ég held að það yrði betra að taka fyrra fyrirkomulag upp en margir hugsa með fortíðarþrá til mótanna sem voru haldin hér í Eyjum, lokahófin voru oft á tíðum stórfengleg! Það er kannski bara erfitt fyrir okkur að koma fleiri svona stórum mótum á dagskrá, við getum ekki haft völlinn miklu meira lokaðan en er í dag, við höldum GSÍ mót og svo má ekki gleyma stóru fótboltamótunum sem eru haldin í Eyjum, þá er allt gistipláss upppantað. Við erum að spá í að byrja með spennandi mót á haustin, þar sem bæði verður keppt án forgjafar en líka með punktafyrirkomulagi. Við viljum laða alla bestu kylfinga landsins til Eyja en fá líka meðal-Jónana og að sjálfsögðu myndi allt enda með gleði að hætti Eyjamanna.

Veturinn var góður, við erum með tvo golfherma hér í skálanum og voru þeir mjög mikið notaðir. Við höfum getað sinnt unglingastarfinu mjög vel og þar fyrir utan notuðu félagsmenn hermana óspart, það býr til svo góðan félagsanda og það er mjög mikilvægur hluti starfsins. Það er af sem áður var, þegar kylfingar settu golfsettið inn í geymslu að hausti og snertu ekki aftur fyrr en að vori. Ekki skemmdi síðan fyrir nýafstaðið Masters-mót, ég fékk ótal símhringingar frá fólki sem hefur ekki mikið verið að spá í golfi en var límt við skjáinn. Ég á alveg eins von á að þetta fólk muni bætast í klúbbinn og það yrði bara frábært. Golfið er á gífurlegri uppleið og er það auðvitað mest að þakka inniaðstöðunni sem er komin út um allt land. Það skemmir ekki fyrir áhuganum að bjóða upp á svona sjónvarpsefni eins og á sunnudaginn. Ég hef horft á golf síðan ég var peyi, tók upp öll stærstu mótin og horfði á aftur og aftur, er alltaf límdur fyrir framan skjáinn þegar risamótin eru og efa að ég muni verða vitni að öðru eins móti eins og þetta Masters-mót var. Lokadagurinn var lyginni líkastur og þetta verður bara til að auka hróður þessar frábæru íþróttar enn frekar.

Ég er spenntur fyrir sumrinu og hlakka mikið til að taka á móti kylfingum hér í Eyjunni fögru grænu,“ sagði Kalli að lokum.

Golfvöllur Vestmannaeyja: