Varð of passífur eftir góða byrjun - segir Haraldur Franklín
„Ég reyndi mitt besta en er drullufúll að komast ekki þangað sem mig langaði, að vera í topp 25 en ég stend þó uppi með mjög góðan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili,“ segir Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur sem endaði í 76. sæti á lokaúrtökumótinu fyrir DP mótaröðina, þá sterkustu í Evrópu.
Haraldi gekk ekki nógu vel á árinu á Áskorendamótaröðinni, sem er nú næst sterkasta. Hann þurfti því að ná góðum árangri í úrtökumótunum þremur. Hann komst í gegnum fyrstu tvö stigin og inn á lokaúrtökumótið með tæplega 160 öðrum kylfingum. Tæplega þúsund kylfingar tóku þátt í níu mótum á fyrsta stigi. Um 300 léku síðan á fjórum mótum á öðru stigi.
„Ég fór inní þetta mót smá með bakið upp við vegginn. Þurfti nauðsynlega að ná niðurskurði til að tryggja þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour) á næsta ári. Byrjaði rosalega vel fyrstu 2 dagana. Svo var ég alltof passívur þriðja og fjórða dag. Ég var glaður að vera öruggur í gegnum niðurskurð en skuldaði of mörg högg uppá topp 25. Reyndi mitt í síðustu tveimur hringjunum en það gekk ekkert upp. Í heildina var slátturinn ekki eins og ég vil hafa hann allt mótið. Pútterinn rosagóður og baráttan alveg góð.“
Hvaða þátttökurétt ertu með fyrir næsta tímabil eftir þennan árangur?
„Sárabótin er að ég er með frábæra kategoríu á Challenge á næsta ári og ætti að detta inná um 3-5 mót á Evróputúrnum á næsta ári.
Fyrir úrtökumótin var ég búinn að missa þátttökurétt á Challenge og hefði þurft að fara aftur á Nordic röðina ef ég hefði ekki náð svona langt. Núna er ég með topp „categoríu“ á Challenge og fæ nokkur mót á DP mótaröðinni á næsta tímabili.“