Uppselt í fyrsta mót sumarsins í Grindavík
Handboltakempan og rithöfundurinn Bjarni Fritzson á meðal nýrra meðlima GG
Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur á Húsatóftavelli í morgun þegar fyrsta golfmót Golfklúbbs Grindavíkur var haldið en völlurinn opnaði inn á sumarflatir fyrir skömmu. Húsatóftavöllur kemur eins og aðrir vellir, mjög vel undan vetri og var mikill hugur í kylfingum í skálanum þegar blaðamaður Kylfings mætti.
Það kom blaðamanni skemmtilega á óvart hversu mörg óþekkt andlit voru á meðal keppenda en mjög margir hafa skráð sig í klúbbinn að undanförnu enda býður klúbburinn einstaklega hagstætt ársgjald, 44.900 kr.
Einn þessara nýju meðlima er fyrrum handboltakempan og núverandi rithöfundur, Bjarni Fritzson en hann er meðlimur í golfhópnum „Tipsy.“
„Ég er í GR en við félagarnir í Tipsy höfum spilað mjög mikið í Grindavík undanfarin ár. Við elskum Húsatóftavöll og okkur finnst frábært að geta farið í golf þegar okkur langar, á móti því að þurfa panta rástíma nokkra daga fram í tímann. Við munum auðvitað halda áfram í GR en við gátum ekki annað en tekið þessu gylliboði Helga Dan, hann var búinn að liggja í okkur að ganga í klúbbinn og að borga einungis 44.900 kr í ársgjald er gjöf en ekki gjald að okkar mati. Það er orðin svo mikil aukning í golfinu sem er frábært og þá er mjög gott fyrir okkur að hafa úr fleiri völlum að spila en Grafarholtið og Korpuna. Við erum mjög ánægðir að vera gengnir í Golfklúbb Grindavíkur.

Við ætlum ekki bara að mæta og spila, við erum gengnir í klúbbinn til að kynnast Grindvíkingum og m.v. stemninguna hér í dag þá líst mér mjög vel á mig. Við ætlum t.d. að mæta í meistaramótið í sumar og hlökkum mikið til að kynnast þessum skemmtilegu Grindvíkingum.
Ef þú spyrð mig hversu góður eða lélegur ég er í golfi, forgjöfin svarar því. Ég er með 13 í forgjöf, er mjög góður þegar ég er góður en líka mjög lélegur þegar ég er lélegur. Í þessu nýja forgjafamati þar sem átta bestu hringirnir af tuttugu telja, ætti ég að vera með svona 18 í forgjöf. Ég dett stundum á góða hringi og þeir telja. Eins og allir kylfingar þá ætla ég mér að sjálfsögðu að lækka mig meira, eigum við ekki að setja takmarkið á að komast í eins stafa forgjöf en hvort það takist í sumar er svo annað mál,“ sagði fyrrum handboltakempan og núverandi golfsnillingur.

