Tiger Woods og Augusta National í samstarf um samfélagsverkefni
Augusta National golfklúbburinn tilkynnti nýlega samstarf við Tiger Woods og góðgerðarsamtök hans, TGR Foundation, um að efla menntun og golfaðgengi í Augusta, Georgíu. Verkefnið felur í sér byggingu TGR Learning Lab þar sem boðið verður upp á STEAM-menntun (raungreinar, tækni, listir o.fl.) fyrir ungmenni. Einnig mun Woods, í gegnum TGR Design, hanna nýjan níu holu æfingavöll sem hluta af endurnýjun almenningsvallarins „The Patch“.
„Við viljum skapa aðgengilegt og gæðaumhverfi fyrir menntun og golf, og styðja framtíðarkynslóðir. Þetta samstarf sameinar menntun, golf og samfélagsþjónustu – þrjár af ástríðum mínum,“ sagði Woods.
TGR Learning Lab verður reistur á lóð fyrrum Lamar-grunnskólans og opnar árið 2028. Hann verður opinn öllum nemendum í Richmond-sýslu og nágrannasvæðum. Námið verður ókeypis og í boði allt árið.
Á sama tíma verður The Patch endurnýjaður með nýjum 18 holu velli, æfingasvæðum og 9 holu stuttvelli hönnuðum af TGR Design. Samstarf við Augusta Technical College og The First Tee of Augusta mun auka menntun og atvinnutækifæri í golfi.
Fyrsti sigur Tigers Woods á risamóti var á Masters 1997 en hann hefur unnið fimm græna jakka. Hann verður ekki meðal keppenda í mótinu í ár sem hefst á fimmtudag.
Klúbbhúsið á The Patch.