Þrír af frægustu kylfingum heims opnuðu Masters 2025 - myndir og video
Þrír af þekktustu kylfingum heims, allir komnir vel á aldur voru mættir á fyrsta teig á Augusta National golfvellinum þar sem Masters mótið fer fram næstu daga. Þetta voru þeir Jack Nicklaus, Tom Watson og Gary Player. Þeir opnuðu Masters mótið 2025 og slógu allir af teig eitt högg. Þeir eiga saman ellefu græna jakka.
Þeir áttu allir fínustu teighögg en Player sló fyrstur. Hann lyfti löppinni hátt upp eftir höggið en Gary hefur verið þekktur fyrir það í gegnum tíðina að hugsa vel um líkamann. Gary var fyrsti kylfingurinn utan Bandaríkjanna til að vinna græna jakkann. Árið 1978 var vann hann mótið í þriðja sinn, þá elsti í sögunni, 42 ára. Player var sjö höggum á eftir forystusauðnum fyrir lokahringinn en fékk sjö fugla á síðustu tíu brautunum.
Nicklaus sló svo aldursmeti Players við en Jack á sex græna jakka, flesta allra. Sá síðasti kom árið 1986 en þá var Jack 46 ára gamall.
Á ferlinum náði hann mögnuðum árangri og á ennþá 17 met á Masters. Nicklaus missti aðeins niðurskurðinn sjö sinnum á 45 árum, þar af fjórum sinnum í síðustu fjögur skipti sem hann tók þátt og einnig í fyrsta mótinu. Þegar hann var 58 ára gamall endaði hann í 6. sæti sem er hæsti aldur keppanda í topp tíu.
Jack er 85 ára og er orðinn svoldið stirður en alltaf brosmildur og hress eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði en flestir telja hann besta kylfing sögunnar.
Tom Watson fór síðastur á teig í morgun á Augusta. Hann vann Masters 1977 og 1981 en Watson er þekktastur fyrir fimm risasigra sína á Opna breska mótinu, The Open.
Þremenningarnir með formanni Augusta klúbbsins.
Barbara eiginkona Jacks var klædd í kylfubera-búning og mætti með sínum manni á teig.
Watson sló gott upphafshögg en hann hefur verið í þessu hlutverki að vera með þeirra sem opna mótið síðan 2022, Nicklaus frá 2010 og Player frá 2012.