Sjávarútvegsmótaröðin leikin á Vestfjörðum
Tungudalsvöllur miklu fyrr á ferðinni í ár eftir mildan vetur
„Hvaða vetri,“ spurði formaður Golfklúbbs Ísafjarðar, Guðjón Helgi Ólafsson, þegar blaðamaður spurði hann hvernig Tungudalsvöllur kæmi undan vetrinum. Ísfirðingar muna varla eins mildan vetur og er að renna sitt skeið í næstu viku. Ísfirðingar eru spenntir fyrir komandi golfsumri og hlakka til að taka á móti kylfingum sem vilja leika Tungudalsvöllinn.
Ísfirðingar hafa venjulega ekki getað opnað sinn golfvöll fyrr en í seinni partinn í maí eða jafnvel nálægt mánaðarmótum maí - júní en allt útlit er fyrir opnun mun fyrr í ár.
„Ég man ekki annan eins vetur held ég og það leiðir auðvitað af sér að grasið tekur fyrr við sér. Við erum vanir að opna völlinn í byrjun maí og það hefur jafnvel dregist vel inn í maímánuð en mér sýnist á öllu eins og staðan er núna, að við getum opnað fyrr í ár. Oft er best að hafa snjó því þá á klakinn ekki eins greiða leið, um tíma í vetur leit þetta ekki svo vel út því það var klaki á vellinum en svo hlýnaði og klakinn hvarf svo ég held ég geti fullyrt að völlurinn hafi sjaldan eða aldrei litið eins vel út á þessum tíma árs.

Inniaðstaðan okkar hefur verið góð undanfarin ár, við festum kaup á húsnæði inni í bænum og erum bæði með golfhermi þar, púttaðstöðu og hægt er að æfa vippin. Þetta hefur verið mjög vel nýtt og krakkarnir hafa verið á reglubundnum æfingum í vetur, þar fyrir utan eru meðlimir á fullu að spila og má segja að frá nóvember og út veturinn sé erfitt að fá tíma í herminum. Þessi frábæra inniaðstaða getur ekki annað en leitt til þess að við fáum fleiri efnilega kylfinga sem geta orðið afrekskylfingar og svo náum við meðalskussarnir líka að bæta okkur, engin spurning.

Sumrin okkar eru nokkuð hefðbundin en undanfarin ár hefur verið í gangi svokölluð Sjávarútvegsmótaröð, þá eru fjórir vellir spilaðir, hér á Ísafirði og í Bolungarvík er leikið tvisvar sinnum og eitt mót haldið á Patreksfirði og Bíldudal. Hvar sjöunda mótið er haldið er svo ákveðið um sumarið og öll mótin telja og meistari krýndur í lokin. Það eru sjávarútvegsfyrirtækin í þessum byggðarkjörnum sem standa að þessu en þessi mótaröð hefur verið í gangi í u.þ.b. fimmtán ár. Flestir ef ekki allir golfklúbbar eru með sína stigamótaröð og þá eðlilega leikið á sínum velli en við spilum fjóra velli sem gerir mótið ennþá skemmtilegra að mínu mati.
Við erum með fleiri mót og svo er meistaramótið okkar í byrjun júlí, jól kylfingsins eins og sumir vilja meina að mótið sé. Ég hef ofboðslega gaman af því að taka þátt og hlakka mikið til. Mætingin hefur alltaf verið góð og við endum á góðu lokahófi, þetta er eitt það skemmtilegast sem ég geri, að taka þátt í meistaramótinu.“
Límdur við skjáinn
Guðjón Helgi hreyfði sig varla úr sófanum um síðustu helgi.
„Þetta mót var með hreinum ólíkindum, ég nánast hélt í mér svo ég myndi örugglega ekki missa af neinu! Þessi högg sem litu dagsins ljós, ég er ekki viss um að maður muni sjá annað eins í beinni útsendingu. Þessi tvö högg Rory, á sjöundu og fimmtándu, manni líður nánast eins og maður sé að spila aðra íþrótt! En svo sýna þessir snillingar að þeir eru mannlegir eins og við, ég hefði treyst mér í betra högg á
átjándu holunni en Rory framkvæmdi, kannski ekki undir þessari pressu sem var á honum en það er kannski gott að sjá að þessir menn eru mannlegir eins og við hin. Þetta kannski sýnir okkur hvað hausinn skiptir miklu máli í golfi, andlegi styrkurinn sem Rory sýndi í bráðabananum var ótrúlegur. Ég á lengi eftir að muna eftir þessu móti,“ sagði Guðjón Helgi að lokum.