Fréttir

Rigning og rok í Eyjum - fjórðu umferð frestað
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. ágúst 2022 kl. 11:11

Rigning og rok í Eyjum - fjórðu umferð frestað

Keppni hefur verið frestað á lokadegi Íslandsmótsins í golfi 2022 í Vestmannaeyjum vegna mikillar rigningar og vinds. Fyrstu keppendur fóru út kl. 6 í morgun og sumir er langt komnir með lokahringinn en efstu keppendur eru búnir með um þriðjung hringsins.

Mótstjórn mun fara yfir stöðuna á næstu klukkustundum. Keppni hefst í fyrsta lagi kl. 13.00. 

Skor eru góð miðað við erfiðar aðstæður og kylfingar báru sig vel með regnhlífar og í regnfatnaði Kristján Þór Einarsson er með þriggja högga forskot en hann hefur lokið við sex holur. Hann er á -6 í heildina. Fjórir kylfingar eru á -3, Sigurður Arnar Garðarson, Rúnar Arnórsson, Kristófer Orri Þórðarson og Sigurður B. Blumenstein. 

Í kvennaflokki er óbreytt staða hjá þeim Perlu Sól Sigurbrandsóttur og Ólafíu Þ. Kristinsdóttur. Perla á högg á Ólafíu. Þær hafa lokið við fjórar holur og eru báðar á pari í dag. 

Fleiri myndir frá leik í morgun í myndasafni með fréttinni.

Lokahollið í karlaflokki á 6. flöt í morgun.

Rúnar Arnórsson, GK, er á -3.

Víða eru komnir pollar og sums staðar tjarnir.

Íslandsmótið í Eyjum 2022