Nýliði lék á 59 höggum!
Nýliði á PGA mótaröðinni, hinn 27 ára Hayden Springer komst í elítuhóp kylfinga sem hafa leikið 18 holur undir 60 höggum. Hann lék á 59 höggum og er fjórtándi kylfingurinn sem gerir það, og annar á tveimur vikum á PGA mótaröðinni. Skorkortið hans er magnað, 12 undir pari!
Hann byrjaði með rólegu pari á fyrstu en næstu átta holur voru magnaðar þar sem hann fékk ekki hærri tölu en 3 á holu. Hann fékk örn á 2. braut og sex fugla á næstu sjö holum! Hann fór rólega af stað á seinni níu holunum og það var ekki útlit fyrir það að hann léki undir 60 höggum þegar leið á seinni níu holurnar en tveir fuglar og einn örn á síðustu fjórum brautunum þurfti til þess og hann náði því, 59 högg. Hann setti niður af 50 metra færi á 17. holu og á þeirri átjándu setti hann niður 4 metra pútt fyrir 59 höggum.
Springer er algerlega óþekktur í golfheiminum og hefur þurft að leggja mikið á sig til að komast á PGA mótaröðina. Hann náði því í gegnum lokaúrtökumót í desember sl. þegar hann varð í 4. sæti. Þá voru aðeins þrír mánuðir liðnir frá því að þriggja ára dóttir hans lést eftir veikindi.
Hann byrjaði árið vel þegar hann varð í 3. sæti í Puerto Rico, einu af fyrstu mótum ársins og hann varð í 10. sæti í Rocket mótinu í síðustu viku. Sex vikur þar á undan hafði hann ekki komist í gegnum niðurskurðinn á jafn mörgum mótum.
Hann er í 127. sæti á stigalistanum og þarf því að klára þetta mót vel til að tryggja stöðu sína á mótaröðinni.
Hér setur Springer ofaní af 50 metra færi á 17. holu.