Fréttir

Naglarnir bestir í opnunarmóti Kiðjabergs
Slegið af fyrsta teig í Kiðjabergi í vormótinu. Mynd af heimasíðu GKB.
Þriðjudagur 28. maí 2024 kl. 09:52

Naglarnir bestir í opnunarmóti Kiðjabergs

Níutíu keppendur eða 45 lið mættu til leiks í fyrsta mót ársins á Kiðjabergsvelli, Grand Open, sem fram fór á laugardaginn. Það voru Naglarnir sem léku best, komu inn á 61 höggi eða 10 höggum undir pari. Liðið skipuðu þeir Þorsteinn Gunnarsson úr GR og Gunnar Þorsteinsson úr GM. Leikfyrirkomulagið var betri bolti með forgjöf.

Fuglavinafélagið hafnaði  í öðru sæti á 63 höggum og Simply the best kom næst á 64 höggi,  eins og Vesen og Klemmi, sem voru með lakara skor á seinni níu,


Ræst var út af öllum teigum á sama tíma kl. 09:30. Frábær verðlaun voru í boði frá Byko, Ölgerðinni og Golfklúbbi Kiðjabergs.

Kiðjabergið kemur vel undan vetri en völlurinn var opnaður 11. maí fyrir félaga og 18. maí fyrir aðra. Fleiri myndir má sjá á heimasíðu klúbbsins.

Nándarverðlaun:

3. hola: Jón Albert - 2,18 m

7. hola: Brynhildur Sig - 3,87 m

12. hola: Jón Gunnarsson - 2,29 m

16. hola: Valdimar Tryggvason  - 2,17 m