Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Húsatóftavöllur opinn inn á sumargrín
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 16. apríl 2025 kl. 10:28

Húsatóftavöllur opinn inn á sumargrín

„Þetta lága ársgjald hefur fengið mjög góð viðbrögð, kylfingar flykkjast í GG,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur en klúbburinn býður líklega upp á eitt ódýrasta ársgjald golfklúbba á landinu. Vegna hamfaranna hefur orðið nokkuð brottfall meðlima GG og var ákveðið að snúa vörn í sókn og reyna laða kylfinga frá höfuðborgarsvæðinu og annars staðar frá, í klúbbinn en það tekur einungis 30-45 mínútur að keyra til Grindavíkur frá höfuðborgarsvæðinu.

Helgi er að hefja sitt sjötta ár sem framkvæmdastjóri GG en hann er líka yfir Húsatóftavelli.

„Völlurinn kemur einstaklega vel undan vetri og mér sýnist hann jafnvel ætla að verða í enn betra ásigkomulagi í ár en í fyrra. Það þarf engan sérfræðing til að átta sig á ástæðunni, tíðin hefur verið góð, lítið um snjó og klaka og þá tekur grasið fyrr við sér. Við erum búnir að vera á fullu að valta flatir og við vorum að slá brautirnar í dag en við opnuðum inn á sumarflatir síðasta laugardag. Við vorum að festa kaup á nokkrum golfbílum og þeir eru komnir í hús svo við erum tilbúnir. Það er búið að vera kalt undanfarið svo það hefur ekki verið mikil traffík en gott veður og golf haldast venjulega nokkuð þétt hönd í hönd. Undanfarin ár höfum við miðað við að opna inn á sumarflatir á sumardaginn fyrsta en gátum og erum mun fyrr á ferðinni í ár, sem er bara frábært. Ég held að völlurinn okkar slái metið síðan í fyrra þegar hann var í einstaklega góðu ásigkomulagi.

Örninn 2025
Örninn 2025
Helgi er nokkuð lunkinn kylfingur.

Við breyttum fyrirkomulaginu varðandi veitingasöluna í fyrra, golfklúbburinn rekur hana í stað þess að þriðji aðili sjái um það og kom það bara mjög vel út. Kylfingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að fara svangir á teig og geta sömuleiðis gert vel við sig að hring loknum.“

Lægsta árgjald á Íslandi

Talsvert brottfall varð í fyrra en neyðin kennir naktri konu að spinna. 

„Við höfum fengið frábær viðbrögð við þessu lága ársgjaldi og hafa fjölmargir stokkið á þetta tækifæri og ég er viss um að fleiri munu fylgja í kjölfarið. Það er stundum eins og fólk af höfuðborgarsvæðinu telji að það taki meiri tíma að keyra þaðan til Grindavíkur, en fyrir okkur Grindvíkinga að keyra til höfuðborgarsvæðisins. Eftir því hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu, tekur ekki nema 30-45 mínútur að keyra suður og ég veit með mig persónulega, ég myndi miklu frekar vilja geta komist á teig nánast þegar mér sýnist, í stað þess að vera mættur fyrir framan tölvuskjáinn þremur sólarhringum fyrir áætlan teigtíma. Það er frábært að geta vaknað einn morguninn, finna hve veðrið er gott og ákveða að skella sér í golf seinni partinn. Við tökum öllum fagnandi og svo er ég líka ánægður með hve margir hópar hafa bókað hjá okkur í sumar, fyrirtæki og golfhópar munu heimsækja okkur í sumar svo ég sé fyrir mér að það verði nóg að gera hjá okkur, sem er auðvitað mjög jákvætt.

Helgi ásamt formanni GG, Hávarði Gunnarssyni.

Mótahaldið okkar verður með svipuðu sniði, stigamótaröðin vinsæla verður á þriðjudögum og svo eru nokkur spennandi opin mót komin á dagskrá, t.d. Texas-mót um sjómannahelgina þar sem fyrstu verðlaun verða ferð fyrir tvo á leik í Englandi, þetta er í boði Sigga Óla hjá Njóttu ferðum. Okkar eina sanna Halla mun halda veglegt mót, Hjá Höllu. Dýrindis máltíð verður fyrir og eftir mót og nokkur fleiri spennandi mót eru líka á dagskrá. Jól golfarans, sjálft meistaramótið verður svo í júlí og hefst miðvikudaginn 16. júlí. Það verður gaman að komast aftur í fjögurra daga mót en við frestuðum því í fyrra vegna veðurs og spiluðum bara þrjá daga í ágúst. Undirbúningur fyrir lokahófið er komið af stað og ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þetta verði eitt veglegasta og flottasta lokahóf í sögu meistaramóta á Íslandi!“

Ótrúlegur lokadagur á Masters

Helgi eins og væntanlega flestir sem geta stafað orðið golf, var límdur við skjáinn um síðustu helgi.

„Ég hef lengi horft á golf í sjónvarpi og efast hreinlega um að maður muni upplifa annan eins lokadag og í þessu Masters-móti. Þvílíkur rússibani og þá sérstaklega hjá Rory, inn á milli högg sem maður trúði varla að væri hægt að framkvæma en síðan á næstu holu mistök sem háforgjafamaður hefði ekki gert! Höggið á fimmtándu holu þar sem hann dregur boltann einhverja 170 metra með sjö-járni og var auli að klára ekki örninn, svo á átjándu holu með rúma 100 metra og hittir ekki flötina! Ég leyfi mér að fullyrða að ef hann myndi slá sama högg 100 sinnum þá færu 99 boltar inn á flötina. Andlegi styrkurinn sem hann sýnir svo í bráðabananum er síðan hreinlega magnaður, búinn að vera kokksa undanfarin ár, hann hlýtur að hafa fengið það á tilfinninguna þegar hann labbaði af átjándu flötinni og var á leið í bráðabana. Justin Rose setti heldur betur pressu á Rory, sem kom með einstakt högg undir gríðarlegri pressu enda mátti sjá það á viðbrögðum hans eftir að sigurinn var í höfn, þetta var sannkölluð fölskvalaus gleði! Ef maður á eftir að upplifa að horfa á annað eins golfmót þá er maður í toppmálum,“ sagði Helgi að lokum.