Fréttir

Hola í höggi í sjötta skipti
Sex puttar á lofti!
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2024 kl. 07:00

Hola í höggi í sjötta skipti

Breytingar í Grafarholti koma vel út

„Þetta er alltaf jafn óvænt og skemmtilegt þegar þetta gerist,“ segir kylfingurinn Gísli Guðni Hall en hann náði að fara holu í höggi í sjötta skipti á golfferlinum á dögunum. Gísli er með sex í forgjöf en fyrir utan að vera góður kylfingur er hann formaður Golfklúbbs Reykjavíkur en klúbburinn hefur hafið gagngerar endurbætur á brautum vallarins og lofar byrjunin góðu.

Það var á holu 25, á „Landinu“, á Korpúlfsstöðum sem sjötta draumahögg Gísla kom. 

„Tilfinningin er alltaf sú sama en maður þorir ekki að fagna fyrr en maður kemur að holunni og sér kúluna ofan í. Fyrst náði ég þessu árið 1986, þá nýbyrjaður í golfi en var þó eitthvað búinn að lækka í forgjöf. Í dag er ég með sex í forgjöf og auðvitað eru líkurnar meiri á að fara holu í höggi eftir því sem maður er betri en heppni spilar stærra hlutverk, það er til mikið af frábærum golfurum sem ná þessu sjaldnar eða aldrei en eru oft ansi nærri því. Hvort þetta sé einhver sérgrein hjá mér ætla ég nú ekki að reyna halda fram. Það er alltaf gaman þegar þetta gerist og auðvitað er sérstakt að ná þessu svona oft þegar betri kylfingar hitta ekki á það. Ég veit um einn kylfing í GR sem hefur náð þessu oftar, Andri Þór Björnsson hefur náð þessu sjö sinnum og Björgvin Þorsteinsson heitinn fór tíu sinnum holu í höggi eða oftar.“

Kylfingur auglýsir hér með eftir þeim sem hafa náð draumahögginu oftar en sjö sinnum. Ábendingar má senda á [email protected].

Gísli hefur verið formaður GR undanfarin ár en miklar breytingar eru hafnar á brautum vallarins.

„Þegar golfvöllurinn var gerður á sínum tíma voru kröfur allt aðrar í dag og tiltölulega fáir í golfi.  Völlurinn var lagður ofan á grýtt holt af mönnum sem unnu þrekvirki.  Það er margt sem er komið á tíma núna um 60 árum síðar, margar brautir ósléttar o.s.frv., og því var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á vellinum.  Völlurinn, sérstaklega teigar og flatir, þurfa að þola mikinn ágang, þess vegna þurfum við t.d. flatir sem bjóða upp á margar mismunandi holustaðsetningar.  Mér er til efs að til séu golfvellir eins þaulsetnir og hjá okkur í Grafarholtinu og á Korpunni. Við tókum átjándu brautina í gegn og opnuðum í fyrra, og nú í ár höfum við opnað nýja 17. og 4. braut.  Við ætlum okkur að taka allar brautirnar í gegn en þetta er flókið og mikið verk, miklir flutningar á jarðefnum o.s.frv. Breytingarnar hafa komið vel út, en þetta er ekki þrautalaust og við byggjum upp reynslu til að læra af.  Hvenær öllu verður lokið ætla ég ekki að segja til um núna, það fer eftir hvað fjárhagur og aðstæður leyfa, og svo auðvitað eftir því hvernig gengur og hvað félagsmenn vilja.“

„Við megum ekki heldur einblína á stórframkvæmdirnar, við erum með 54 holur og þegar við endurbætum eina eða tvær, þá þurfum við að halda öllum hinum í góðu ástandi og bæta vélakost.  Framkvæmdir mega ekki bitna á því.  Við höfum til viðbótar verið í framkvæmdum á Korpunni, t.d. malbikun stíga og fjölgun teiga.  Þetta er og verður alltaf spurning um forgangsröðun og hvað við ráðum við.  Þetta eru langtímaverkefni en bara skemmilegt, enda mikill fjöldi fólks sem að þessu kemur með mismunandi hætti“ segir Gísli.

GR er líklega fjölmennasti golfklúbbur landsins, biðlistinn að komast í klúbbinn telur rúmlega 1000 manns í dag og allar 54 brautir beggja valla er þaulsetnar allt sumar en golfvöllurinn að Korpúlfstöðum er með fjóra níu holu velli, Sjórinn, Áin, Landið og Thorsvöllur.  Það er aðeins rólegra yfir þeim síðastnefnda og hann er kjörinn fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu sport á golfvelli og mjög mikilvægur sem slíkur, hann er einnig eini völlurinn sem við getum haft opinn á veturna.“

„Meistaramótið okkar hófst núna í vikunni, við hófum leik á sunnudaginn og lýkur mótinu á laugardaginn. Það er metfjöldi skráður til leiks í ár, 630 þátttakendur. Ég keppi í flokki 50 ára og eldri og auðvitað stefni ég á sigur, skárra væri það nú en það eru margir góðir kylfingar í flokknum og já nei, ég stefni ekkert sérstaklega á að fara holu í höggi, það bara gerist ef það gerist,“ sagði Gísli að lokum.

Nánast daglegt brauð hjá Gísla...

Hin nýja 17. braut í Grafarholti.
18. brautin er glæsileg í dag.