Haraldur og Guðmundur léku í Frakklandi - enginn Íslendinganna áfram af 1. stigi úrtökumótanna
Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson enduðu í 44. og 63. sæti á móti Áskorendamótaröðinni Frakklandi um helgina. Íslendingarnir þrír, þeir Axel Bóasson, Bjarki Pétursson og Hlynur Bergsson sem léku í Horsens í Danmörku á úrtökumóti á 1. stigi fyrir DP mótaröðina komust ekki áfram.
Hlynur var einn þremenningana sem komst í gegnum niðurskurðinn í Horsens en hann þurfti að vera meðal átján efstu til að komast á 2. stigið. Hann lék á 68-73-72 og endaði í 43. sæti á +3.
Bjarki Pétursson úr Borgarnesi byrjaði mjög vel og lék fyrsta hringinn á 67 höggum, þremur undir pari. Næsti hringur upp á 75 högg endaði möguleikana á að komast áfram.
Axel Bóasson úr Keili lék hringina tvo á á 72 og 76 og var 8 yfir pari og komst ekki áfram.
Um tugur íslenskra kylfinga tók þátt í úrtökumótunum í ár og komst enginn áfram á annað stigið. Þeir reynslumestu, Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst eiga eftir að leik á 2. stigi en þeir komust beint þangað.
Þeir Haraldur og Guðmundur Ágúst léku aðeins 36 holur á mótinu í Frakklandi um helgina en veðurguðirnir gerðu mótshöldurum erfitt fyrir og duttu tvær umferðir út vegna óveðurs.
Haraldur lék á tveimur yfir pari, 73-73. Guðmundur Ágúst endaði á +3, 73-74. Hann er í 86. sæti en Haraldur í 103. sæti á stigalistanum. Þeir félagar verða á 2. stiginu um mánaðarmótin október-nóvember.