Guðrún í 40. sæti í S-Afríku - eitt úrtökumót enn
Guðrún Brá Björgvinsdóttir endaði í 40. sæti í fimmta mótinu sem hún tók þátt í, í S-Afríku á Sunshine Ladies mótaröðinni um síðustu helgi. Næst tekur við úrtökumót fyrir LET mót sem haldið verður í Cape Town í S-Afríku 10.-13. apríl.
Guðrún lék á 72-72-75 eða + 3 og hún segir að þetta hafi ekki verið endirinn sem hún hafi óskað sér en heilt yfir hafi verið margt gott í hennar golfi í þessum fimm mótum sem hún tók þátt í. Besti árangurinn var 6. sæti en hún komst í gegnum niðurskurðinn í þeim öllum. Meðalskorið var 72,4.
Þetta mót var einnig úrtökumót fyrir LET mót en til að vinna sér þátttökurétt þurfti hún að vera meðal fimm efstu eftir tvo hringi sem gekk ekki. Líklega verður svipað uppi á teningnum á mánudaginn í næsta úrtökumóti hvað það varðar. „Þangað til ætla ég ætla að nýta tímann, æfa mig og undirbúa mig hér fram að úrtökumótinu. Þetta er búinn að vera frábær tími og góður undirbúningur fyrir komandi mót en stefnan var að komast inn á LET mót í S-Afríku. Það er alla vega einn séns ennþá,“ sagði Hafnarfjarðarmærin.