Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Eru fjórtan holur hinn gullni meðalvegur?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 17. apríl 2025 kl. 00:00

Eru fjórtan holur hinn gullni meðalvegur?

GOS stefnir á að halda Íslandsmótið í golfi á 60 ára afmæli klúbbsins árið 2031

Líklega eru fáir ef nokkrir golfklúbbar á landinu sem hefur fjölgað eins mikið í og Golfklúbbi Selfoss en í dag eru meðlimir um 760 og hefur fjölgað um u.þ.b. helming síðan 2020. Völlurinn var lengi bara níu holur en eftir að ákveðið var að byggja aðra brú yfir Ölfusá og vegurinn í kjölfarið myndi klípa af þáverandi golfvelli, var ákveðið að stækka völlinn í átján holur. Búið er að stækka völlinn í fjórtán holur og gert ráð fyrir að síðustu fjórar verði allar teknar í notkun árið 2027. GOS verður heldur upp á 60 ára afmælið árið 2031 og dreymir klúbbmeðlimi um að hýsa Íslandsmótið í golfi á þeim tímamótum.
Hlynur Geir í Íslandsmótinu árið 2023, hann var grátlega nærri sigrinum það árið.

Sumir vilja meina að fjórtán holur sé fullkominn holufjöldi á golfvelli, Hlynur Geir Hjartarson er framkvæmdastjóri GOS og er ekki frá því að eitthvað sé til í því.

„Ég finn með sjálfan mig þegar ég er bara að leika mér, níu holur er of lítið en átján holur oftast of mikið, þess vegna verður virkilega gaman að spila Svarfhólsvöllinn okkar í sumar og fram á sumarið 2027, hann er bara fjórtán holur og verður þannig þar til allar fjórar holurnar verða tilbúnar, við stefnum á sumarið 2027. Mótin okkar verða þ.a.l. með breyttu sniði, þau verða bara fjórtán holur og er ég nokkuð viss um að þetta muni mælast vel fyrir. Völlurinn mun svo að sjálfsögðu stækka í átján holur og verður gott að fá nokkur ár til að gera hann fullkominn fyrir afmælisárið, 2031 en þá dreymir okkur um að fá að halda Íslandsmótið. Eigum við ekki bara að segja að ég stefni á að taka þátt þá, ég hef keppt í síðustu Íslandsmótum og haft mjög gaman af, mun að sjálfsögðu mæta í Hvaleyrina í sumar. Ég komst mjög nærri því að vinna mótið fyrir tveimur árum og hví ætti ég ekki að geta stigið skrefið alla leið í sumar, ég þekki ekkert annað en ætla mér að vinna, annað væri glapræði.

Örninn 2025
Örninn 2025
Hlynur með Kristjáni Karli og Ragnari Má á öðrum degi síðasta Íslandsmóts.

Starfið í klúbbnum hefur verið í miklum blóma undanfarin ár og þessi fjölgun meðlima er nánast einsdæmi. Við höfum verið með golfnámskeið í byrjun janúar í tólf vikur undanfarin ár og púttmótaröðin okkar á laugardagsmorgnum eftir áramót er sömuleiðis mjög vinsæl, GOS-liðar hittast þá, fá sér kaffi, leysa úr heimsmálunum og taka pútthring.

Fyrir nokkrum árum gat ég sinnt kennslunni á fullu samhliða framkvæmdastjórastöðunni en er nánast alveg hættur því í dag, er með flotta kennara svo ég get einbeitt mér að rekstri klúbbsins, það er í mörg horn að líta í þeim efnum því við rekum bæði veitingasöluna og golfbúðina, ég þarf stundum að hoppa þarna á milli en það er bara gaman. Ég vil hafa nóg fyrir stafni og þess vegna er ég í draumastarfinu hjá mínum heimaklúbbi í mínum heimabæ.“

Minnti á Istanbul ´05

Hlynur er nýlega kominn til Spánar, er að hlaða batteríin fyrir sumarið og fljótlega munu GOS-arar fara til Spánar í sína árlegu golfferð. Hlynur eins og aðrir kylfingar, lét Masters-mótið ekki fara fram hjá sér og náði að koma með ansi góða samlíkingu.

„Þetta minnti mig á þegar við Liverpool-menn vorum í úrslitaleik Champions league á móti AC Milan í Istanbúl árið 2005. 0-3 undir í hálfleik og maður hafði nákvæmlega enga trú á endurkomu en það ótrúlega gerðist, við náðum að jafna og unnum svo eftir vítaspyrnukeppni. Þetta er eitthvað sem maður á næsta örugglega aldrei eftir að upplifa aftur, þá tilfinningu fékk ég á sunnudaginn þegar ég horfði á mótið. Þvílíkar og aðrar eins sveiflur hef ég bara aldrei séð held ég, allt frá ótrúlegustu golfhöggum sem maður hefur séð eins og annað högg Rory á fimmtándu holunni, í að hafa á tilfinningunni að maður hafi verið að horfa á byrjanda á átjándu holunni þegar hann setti annað höggið í glompuna. Líkurnar voru 99% á boltinn endaði frekar nokkra metra frá holunni. Þetta var þvílík dramatík og frábært að verða vitni að þessu, gleymum því ekki að það eru 25 ár síðan Tiger Woods náði þessari alslemmu. Rory er sá sjötti í sögunni sem nær þessu og maður sá svo greinilega hvað þetta þýddi fyrir hann þegar lokapúttið fór niður. Þetta var frábær auglýsing fyrir golfíþróttina og ég á ekki von á öðru en frekari aukning sé framundan í klúbbum landsins. Framtíð golfíþróttarinnar er mjög björt á Íslandi,“ sagði Hlynur Geir að lokum.

Teikning af framtíðarhönnun Svarfhólsvallar.