Fréttir

Byrjaði ekki alveg á réttum forsendum í golfi
Eitt af markmiðum Gauta er að kynna golfíþróttina fyrir eiginkonu sinni, Telmu Dögg Stefánsdóttur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 30. júlí 2024 kl. 16:47

Byrjaði ekki alveg á réttum forsendum í golfi

Markmið kylfings dagsins er að koma fjölskyldunni í íþróttina líka. Hann byrjaði kannski ekki alveg á réttum forsendum í golfi sem gutti, samlokurnar í skálanum toguðu meira í peyjann en sjálft golfið. Hann hefur farið holu í höggi og hefur lent í óhappi á golfvellinum sem margir lenda í en fæstir þora að segja frá.
Kylfingur dagsins er Gauti Elfar Arnarsson.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Ég æfði eitt sumar sem barn, líklega um átta ára. Þá var smíðuð festing svo ég gæti fest golfkerruna við bögglaberan á hjólinu og ég hjólaði upp á Jaðar með settið í eftirdragi á malarvegi. Ég var feitur, latur krakki og ég lagði þetta nær einungis á mig því að samlokurnar sem ég fékk hjá vertanum voru til að deyja fyrir. Þær eru reyndar frábærar í dag líka.

Ég hætti svo í golfi og byrjaði í raun fyrir alvöru sumarið 2021.

 

Helstu afrek í golfinu?

Mitt helsta markmið í golfi er að ná fjölskyldunni í sportið líka. Fyrsta stóra afrekið náðist í fyrra þegar ég náði eiginkonu minni, Telmu Dögg Stefánsdóttir, einn hring á Dúddisen (par 3 holu völlur Golfklúbbs Akureyrar) og einn hring sem bílstjóra golfbíls á Hlíðarvelli síðasta sumar, en hún hefur óbeit á golfáhuganum mínum. Sonur minn Sólon Elfar fór svo á námskeið hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar núna í sumar og hyggst æfa áfram, við vonum að sá áhugi haldist.

Þetta eru mín helstu afrek, en ég á þó heiðurinn af því að vera meðlimur Einherjaklúbbsins en ég fór holu í holu í höggi á 8.braut á Jaðarsvelli í fyrra. Það er ágætis montréttur sem því fylgdi.

 

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Við skulum ekki fara djúpt ofan í það atvik, en ég lærði þá lexíu að það gæti kostað golfhandklæði að háma í sig kjöt í karrí og hlaupa á teig.

 

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Ég hef hlotið þann mikla heiður að spila með tónlistarmanninum Pétri Má Guðmundssyni (Saint Pete).

 

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Ég þykist ekki vera hjátrúafullur í neinu, undantekningin eru nokkrir hlutir uppá velli. Ef ég er með varabolta í vasanum þá nota ég hann, því er ég aldrei með varabolta í vasanum. Einnig ef ég tek varabolta og tek úrvals högg að þá finnst fyrri boltinn alltaf.

 

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Ég hugsa að ég þurfi að temja mér að vera aðeins skynsamari og taka mér meiri tíma í kringum flatirnar.

Aldur: 31 árs

Klúbbur: Golfklúbbur Mosfellsbæjar

Forgjöf: 15,6

Uppáhaldsmatur: Kótilettur í raspi, rabbabarasulta og kartöflur.

Uppáhaldsdrykkur: Guinness á dælu.

Uppáhaldskylfingur: Gunnar Úlfarsson, Hann kom mér aftur af stað í golfið og kynnti mig fyrir þessum frábæra golfhópnum mínum.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Jaðar, Urriðarvöllur og Grafarholtið

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 8.braut á Jaðri, 7.braut í Kiðjabergi og 15. braut í Grafarholtinu.

Erfiðasta golfholan: 15. braut í Grafarholtinu.

Erfiðasta höggið:  Nokkra metra sandhögg úr grunnum blautum bönker.                        

Ég hlusta á: Saint Pete

Besta skor: 84

Besti kylfingurinn: Bryson DeChambeau

Golfpokinn

Dræver: Callaway Mavrik 10,5° x-stiff skaft.

Brautartré: Búinn að leggja því. 5hybrid Callaway Edge (Costco) hefur verið sjálfsláandi frá upphafi.

Járn: Cobra Darkspeed

Fleygjárn: Nota 54°Cleveland með 12% bounchi í nánast allt innan 80 metra nema úr sandi.

Pútter: Scotty Cameron Phantom x 5s

Hanski: Ég nota ótrúlega ljóta hanska sem ég fæ í Erninum frá HIRZL, þeir eru svo teigjanlegir að þeir henta sjúklega vel á stutta og breiða putta.

Skór: Nota þægilega Ecco skó með BOA í harkið en á svo fína hvíta FJ fyrir sólardaga og mót.

Sonurinn Sólon er byrjaður að sveifla kylfu.
Golfhópurinn GK Maack