Arctic open er flaggskip Akureyringa
Frábær inniaðstaða vígð í vetur
„Þessi vetur var mildur og lítið um snjó og frosthörku,“ segir Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Veturinn er venjulega grimmari norðan heiða en annars staðar en veturinn í ár var óvenju mildur og þ.a.l. lítur Jaðarsvöllur mjög vel út á þessum tíma ársins. Akureyrinar voru duglegir í vetur og hafa gjörbylt inniaðstöðu sinni. Sumarið lítur vel út og er fyrir löngu orðið uppselt í öll helstu mótin, m.a. Arctic open.
Steindór er ánægður með nýju aðstöðuna, ekki síst félagsandans vegna.
„Við erum búnir að gjörbylta inniaðstöðunni okkar, við byggðum nýja aðstöðu sem tengist golfskálanum og vígðum hana 16. desember. Við erum með sex golfherma á efri hæðinni og 300 m2 púttgrín og niðri eru 200 m2 pútt- og vippflöt, aðstaða fyrir fjóra til sex til að slá í net og tveir golfhermar. Við erum líka búnir að koma upp Trackman range-búnaði á æfingasvæðinu okkar úti, flestum finnst betra að slá boltann úti og í þessum nýja búnaði er hægt að sjá feril boltans ásamt tölulegum upplýsingum. Ég held að þessi inniaðstaða sé ein sú besta á landinu, við erum mjög ánægðir með þetta.

Síðan erum við að verða búnir með millibyggingu frá inniaðstöðunni að golfskálanum en hann hefur iðað af lífi í allan vetur, við höfum verið með veitingaþjónustuna og golfbúðina opna í vetur og hefur það mælst mjög vel fyrir, félagsandinn hefur verið frábær og það skiptir miklu máli. Þessi inniaðstaða hefur laðað nýja kylfinga að og eflaust munu þeir ganga í klúbbinn. Eftir þennan milda vetur gerir maður sér vonir um að opnun vallarins verði fyrr en vanalega en til þess þurfum við snúa snjókomu síðustu daga yfir í öllu heitara loftslag. Það er erfitt að spá fyrir um veðrið en við skulum segja að allt verði gert til þess að opna völlinn sem fyrst í maí.“
Arctic open
Eitt helsta mót Akureyringa er hið þekkta Arctic open, það er m.a. leikið á nóttunni í kringum sumarsólstöður, mótið í ár verður haldið 19. og 20. júní.
„Þessi helstu mót okkar eru uppseld að ári, stuttu eftir að móti lýkur, við erum ekki með þetta þannig að þeir sem voru í mótinu, hafi forgang árið eftir. Mótið er bara sett í sölu og fyrstir koma, fyrstir fá. Það eru 300 manns í mótinu í ár og aðrir 100 á biðlista. Líklega gætum við haldið tvö 300 manna mót. Ég er nú þegar búinn að taka stöðuna á veðurguðunum fyrir mótið í ár, fékk góð viðbrögð svo ég ætla að leyfa mér að hlakka til. Svo erum við auðvitað með fleiri mót og klúbbmeðlimir bíða spenntir eftir meistaramótinu,“ segir Steindór.
Justin og Rory uppáhalds kylfingarnir
Segja má að Steindór hafi notið Masters mótið betur en margur annar, hans uppáhalds kylfingar voru að slást um toppsætið.
„Það verður erfitt að toppa þetta mót og ég naut þess í botn, ekki síst þar sem mínir uppáhalds kylfingar, Justin Rose og Rory McIlroy, voru að slást um sigurinn. Sveiflurnar voru ótrúlegar og það kom manni kannski jafn mikið á óvart að sjá Rory slá þetta lélega högg á átjándu holu, eins og frábæru höggin hans á sjöundu og fimmtándu voru. Þetta var sjónvarpsefni í hæsta gæðaflokki og ég naut hverrar mínútu. Svona mót og þessi frábæra inniaðstaða, er frábær auglýsing fyrir golfíþróttina og ég á ekki von á öðru en enn meiri fjölgun verði í klúbbum landsins á næstunni,“ sagði Steindór að lokum.