Örninn 2023
Örninn 2023

Fréttir

„Var ekki nógu ákveðinn á pinnann“ - Gott mót hjá Haraldi Franklín
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 18. september 2022 kl. 18:27

„Var ekki nógu ákveðinn á pinnann“ - Gott mót hjá Haraldi Franklín

Fjórir íslenskir kylfingar með þátttökurétt á Áskorendamóti í Frakklandi í næstu viku

Haraldur Franklín Magnús lék vel og endaði jafn í 22. sæti á móti á Áskorendamótaröðinni í Portúgal. Haraldur lék alla hringina undir pari og endaði á -8 en Pierre Pineau frá Frakklandi sigraði á fimmtán höggum undir pari. Leikið var á Royal Óbidos Spa & Golf Resort í Vau Óbidos í Portúgal.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hann lék 36 holurnar á +4. 

Haraldur er í 86. sæti á stigalistanum með 23.945 stig en Guðmundur er í 89. sæti með 22.140 stig. 

„Þetta var svona heilt yfir ágætt. Völlurinn var blautur og spilaðist því lengri. Hann er nokkuð opinn af teig en mikið af hættum í kringum flatirnar. Það sem að hefði mátt fara betur voru innáhöggin. Ég var einhvern veginn of varkár í þeim, ekki nógu ákveðinn á pinnann og fékk því ekki nógu mikið af færum. Svo náði ég ekki heldur að setja neitt af púttum úr milli lengd niður en að sama skapi bjargaði ég mér oft fyrir pari,“ sagði Haraldur Franklín við kylfing.is eftir mótið. Hákon Örn Magnússon, félagi Haraldar úr Golfklúbbi Reykjavíkur sem reyndi fyrir sér á 1. stigi úrtökumóta í síðustu viku, var á pokanum hjá Hadda og aðstoðaði hann í mótinu.

Haraldur heldur nú til Frakklands á næsta mót sem er Swiss Open þótt ótrúlegt sé. Haraldur er með þátttökurétt en Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson eru á biðlista og þar er Guðmundur nr. 3 og því ekki ólíklegt að hann komist inn.