Viðtal

„Vil keppa sem mest erlendis“
Mánudagur 9. janúar 2023 kl. 23:44

„Vil keppa sem mest erlendis“

Íslandsmeistarinn Perla Sól Sigurbrandsdóttir var ánægð með frammistöðuna á Orange Bowl unglingmótinu á Miami.  Mótið er alþjóðlegt boðsmót þar sem mörgum af bestu kylfingum Bandaríkjanna í unglingaflokki er boðið til leiks ásamt alþjóðlegum landsmeisturum víðs vegar úr veröldinni. Mótið er leikið á Biltmore vellinum í Coral Gables í Florida. Mótið á sér langa sögu, það var fyrst haldið árið 1948, en í ár var leikið á mótinu í 59. skipti.

Sigurvegari mótsins var Anna Davis en hún er í 9. sæti á heimslista WAGR (World Amateur Golf Ranking) og hefur unnið mörg sertk mót í Bandríkjunum. Hún vann t.d. eitt serkasta áhugamannamótið í Bandaríkjunum, Augusta National Women´s Amateur Championship. Sú sem var í öðru sæti, Savannah De Bock er Evrópumeistari kvenna og hefur unnið mörg önnur sterk mót. Hún er númer 52 á heimslistanum. 

„Orange Bowl er eitt af skemmtilegustu mótum sem ég hef tekið þátt í. Mér fannst fyrst mikil pressa að hafa svona marga þjálfara á eftir mér en lærði svo að höndla það nokkuð veginn.  Er þakklát fyrir tækifærið að byrja árið að spila á þessu sterka móti. Þetta er annað skipti sem ég spila á þessu móti og kann betur við mig með aðstæður og völlinn sjálfan. Ég var mjög spennt að fá að keppa aftur og spila á grasi eftir að hafa æft innandyra í Korpu og Básum. Ég var sæmilega sátt með spilamennskuna hjá mér í mótinu og tek margt jákvætt úr mótinu. Það er auðvitað alltaf hægt að bæta sig og það eru nokkrir hlutir sem ég ætla að leggja meiri áherslu á fyrir sumarið. Er bara sátt að hafa lent jöfn í 8.sæti , er enn í undirbúningstímabili og var aðeins ryðguð í kringum grínum og allt innan við 50m sem er krefjandi að æfa á Íslandi um veturinn. 

Næst á dagskrá er æfingarferð með landsliðinu á Hacienda Del Alamo á Spáni. Sú ferð verður góður undirbúningur fyrir næsta mót hjá mér sem verður í Portúgal vikuna eftir“ sagði Perla Sól í samtali við Kylfing. 

Og bætti við: „Ég vil einblína á að keppa sem mest erlendis í sterkum mótum og stefni svo á háskólagolf í Bandaríkjunum árið 2025. “

Það verður gaman að fylgjast með Íslandsmeistaranum Perlu Sól á vellinum á komandi sumri. Þess má geta að Perla Sól fékk afhentan háttvísibikar GR á aðalfundi klúbbsins í desember síðastliðnum. 

Á heimasíðu GR segir: „Háttvísibikarinn er gjöf frá GSÍ í tilefni af 70 ára afmæli GR og er hann veittur ár hvert þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem GR-ingar vilja sjá í afreksunglingum sínum. Sá sem hlýtur háttvísibikarinn þarf að hafa mikinn íþróttaanda, gefast aldrei upp, sýna miklar framfarir, vera sér og klúbbnum til mikils sóma bæði innan vallar sem utan og umfram allt vera fyrirmynd fyrir aðra í kringum sig. Perla Sól Sigurbrandsdóttir hlýtur viðurkenninguna í ár. Hún er búin að eiga alveg hreint magnað ár og er mikil og sterk fyrirmynd fyrir aðra iðkendur. Hún er mjög dugleg við æfingar og hefur sýnt  hörkuframfarir undanfarin ár. Hvar skal byrja? Hún hóf sigurför sína þessa árs í lok ársins 2021 þegar hún sigraði á Orlando International. Í sumar sigraði hún svo á einu sterkasta unglingamóti Evrópu, European Young Masters, sem fór fram í Finnlandi. Sigur Perlu á þessu móti er sögulegur þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur kvenkylfingur sigrar á þessu móti.

Perla Sól sigraði á Íslandmóti í höggleik kvenna í fyrsta skipti á sínum ferli og má taka fram að Ólafía Þórunn atvinnukylfingur var í 2. sæti. Perla Sól var stigameistari 2022 á unglingamótaröð GSÍ í flokki 15-16 ára stúlkna. Hún tók þátt í fjórum af alls fimm mótum mótaraðarinnar og sigraði í öll fjögur skiptin. Hún var Íslandsmeistari í höggleik 15-16 ára og er þetta fimmta árið í röð sem Perla Sól sigrar á Íslandsmótinu í höggleik í sínum aldursflokki.

Perla var valin og fagnaði sigri með úrvalsliði Evrópu sem keppti gegn úrvalsliði Bretlands og Írlands í Junior Vagliano liðakeppninni 2022. Mótið er árlegur viðburður þar sem að úrvalslið kvenna 16 ára og yngri keppir sín á milli, og aðeins kylfingar í fremstu röð á heimsvísu eru valdir í þetta mót. Einnig hefur hún verið valin í úrvalslið Evrópu gegn Asíu og mun það mót fara fram á næsta ári. Árið 2022 færði Perla Sól sig upp um 1340 sæti á heimslista áhugakylfinga. Perla er alltaf til fyrirmyndar, bæði innan vallar sem utan og er glæsilegur fulltrúi Golfklúbbs Reykjavíkur.“