Viðtal

Í fínu formi við æfingar á Spáni
Föstudagur 27. janúar 2023 kl. 23:41

Í fínu formi við æfingar á Spáni

Bjarki Pétursson atvinnukylfingur úr Borgarnesi undirbýr sig nú af fullum krafti fyrir komandi leiktímabil. Hann var ásamt flestum bestu kylfingum landsins í æfingaferð á Spáni nýlega og er ánægður með stöðuna á sér.

„Formið er mjög fínt. Tók mér góða pásu eftir lokastigið í Qschool til þess að vinna og er að trekkja mig í gang aftu rnúna. Síðustu 2 vikur hef ég verið á Spáni við æfingar bæði með landsliðinu og sjálfur. Landsliðsferðin var á Hacienda de Alamo og var gífurlega gaman að æfa og spila með bestu kylfingum landsins í viku. Það ver mikil tilhlökkun að hefja keppnistímabilið 2023. Ég er með sambærilegt plan og síðustu 2 ár. Blanda af Nordic og Challenge Tour mótum. Ég mun taka öll Challenge Tour mót sem ég kemst inní en þess á milli ætla ég að halda mér í góðu formi á Nordic League. Vonast að ég komist á fyrsta mótið á Challenge Tour í maí/júní og stefnan að ná 3-5 mótum á Nordic fyrir það. Það stefnir í að mótin verði flest í Evrópu hjá mér, en gæti hugsanlega komist inn í mót í Suður-Afríku og Indlandi“ sagði Bjarki í samtali við Kylfing.

Steypustöðin, GG Verk og Titleist á Íslandi eru helstu styrktaraðilar Bjarka og kveðst hann þessum fyrirtækjum mjög þakklátur fyrir stuðninginn. 

Bjarki varð Íslandsmeistari í golfi árið 2020 og lék mjög vel í úrtökumótunum fyrir DP World Tour síðastliðið haust en datt út á lokametrunum. Kylfingur.is óskar Bjarka góðs gengis á komandi tímabili.