„Skemmtilegasta sem ég geri“ - segir Kristján faðir Guðmundar Ágústs
„Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, að fylgjast með Guðmundi Ágústi úti á golfvelli. Takmarkið hefur lengi verið að ná í efstu deild og nú tókst það,“ segir Kristján Ágústsson, faðir Guðmundar Ágústs atvinnukylfings, en hann fylgdi syninum og var kylfusveinn hjá honum í tveimur lokaúrtökumótum fyrir DP Evrópumótaröðina í október og nóvember.
Guðmundur tryggði sér fullan þátttökurétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu, DP World Tour.
„Þetta er það sem stefnt var að. Við náðum þessum árangri en það tók langan tíma,“ segir faðirinn stoltur í viðtali við kylfing.is. Kristján hefur verið einn duglegasti golfpabbi afrekskylfings í nærri tvo áratugi. Hann byrjaði snemma að vera kylfusveinn fyrir drenginn og iðulega var Kristján með myndavélina á lofti. Hann er afar sáttur með golfleik sonarins í þessum tveimur mikilvægu mótum og segist ekki hafa orðið stressaður fyrir en þrjár holur voru eftir af 108 í lokaúrtökumótinu.
Kristján fer yfir málin í stuttu en skemmtilegu viðtali við kylfing.is.