Fá mistök og stöðugt golf - hvernig tókst Guðmundi Ágústi að komast á bestu mótaröð Evrópu?
Guðmundur Ágúst Kristjánsson atvinnukylfingur úr GKG vann sér þátttökurétt á DP World Evrópumótaröðinni í golfi og hefur leik á fyrsta mótinu á mótaröðinni 2022-2023 á Joburg Open á Houghton golfvellinum í Jóhannesarborg í S-Afríku 24.-27. nóvember.
Í viðtali við Pál Ketilsson segir Guðmundur að stöðugt og gott golf hafi skilað honum alla leið. „Ég gerði mjög fá mistök og þá telja fuglarnir meira. Ég var nokkuð slakur og spennustigið lágt. Fyrsta skiptið var erfiðast, þetta var mun auðveldara. Ég hlakka mikið til að hefja leik á DP mótaröðinni og stefni að því að halda áfram á þeirri braut sem ég var á í lokaúrtökumótunum,“
Í viðtalinu er Guðmundur spurður út í úrtökumótin, spennustigið, golfárið á Áskorendamótaröðinni og það sem framundan er.
Hér er keppnisdagskráin á DP World Tour 2022-2023.
GKG hélt hóf til heiðurs Guðmundi Ágústi þar sem vinum, ættingum og velunnurum kylfingsins var boðið. Grímur Kolbeinsson var með myndavélina í hófinu og smellti.
Með foreldrunum og ömmu og afa í heiðurshófinu í golfskála GKG.