Ungur Frakki með magnaðan -11 hring í S-Afríku
Tuttugu og eins árs gamall Frakki, Martin Couvra gerði sér lítið fyrir og lék fyrsta hringinn á NMB mótinu á Áskorendamótaröðinni sem fram fer á Humewood golfvellinum í S-Afríku, á 11 höggum undir pari.
Frakkinn ungi fékk þrjár erni og fimm fugla á hringnum og er með tveggja högga forskot eftir fyrsta hringinn. Kappinn var meðal bestu áhugamanna í Evrópu en vann sinn fyrsta sigur á Áskorendamótaröðinni í fyrra.
„Þetta er magnaður golfvöllur og ég elska S-Afríku. Ég á góðar minningar þaðan frá mínum áhugamannaferli og með franska landsliðinu,“ sagði Couvra.
Haraldur Franklín var með þátttökurétt á þessu móti en freistaði þess að komast inn á mót vikunnar á DP mótaröðinni í Kenýa. Því miður komst hann ekki inn, var efstur á biðlista. „Ég ákvað að freista þess að ná inn á mótið á DP en vantaði einn upp á,“ sagði Haraldur sem er á heimleið í bili.