Fréttir

Sigurður Bjarki um vallarmetið: „Fannst ég geta sett allt í holu“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. ágúst 2022 kl. 11:41

Sigurður Bjarki um vallarmetið: „Fannst ég geta sett allt í holu“

Sigurður Bjarki Blumenstein, Golfklúbbi Reykjavíkur, var heitasti kylfingurinn á þriðja hring og jafnaði vallarmetið, 8 undir og 62 högg. „Mér leið bara eins og öll högg væru að fara nálægt. Ég var að hitta allar brautir og öll pútt voru að fara í. Ég var bara sjóðheitur og það var gaman að jafna vallarmetið,“ sagði Sigurður eftir hringinn.

Hann lék fyrri níu holurnar á 6 undir pari, 29 höggum. Fékk sex fugla.

„Ég vissi að ég þurfti að setja niður gott pútt á 9. flöt til að ná 29 höggum og negldi það í. Fuglarnir komu bara líka á seinni níu holunum (15.,16. og 18.) Ég fékk t.d. þægilegan fugl á 16. braut þar sem ég sló inn á í tveimur höggum, dræv og 7-járn og sama á 18. braut, dræver og 7-járn. Tapaði reyndar höggi á 17. braut og var bara góður að fá skolla þar. Eftir 15. braut var ég farinn að hugsa aðeins um vallarmetið en var ekki alveg viss hvað það var. Ég vissi að ég þyrfti að setja niður langt pútt fyrir erni á 18. holu til að setja nýtt met. Var sáttur með fugl og jöfnun á vallarmetinu,“ sagði Sigurður Bjarki sem vann sitt fyrsta stigamót í sumar.