Fréttir

Sigurður Arnar og Erla Rún efst
Mánudagur 30. janúar 2023 kl. 23:24

Sigurður Arnar og Erla Rún efst

Landsmót í Trackman golfhermum stendur nú yfir. Leiknar eru tvær undankeppnir og stendur sú fyrri nú yfir. Opið er fyrir leik til 21. febrúar og komast 48 efstu karlarnir og 24 efstu konurnar áfram í seinni undankeppnina sem fer fram  15. febrúar til 26. mars. Þann 2. apríl verður úrslitakeppnin leikin í Íþróttamiðstöð GKG, en þangað komast 8 efstur karlarnir og 8 efstu konurnar og leika þar 36 holur til úrslita um titilinn Landsmeistari í golfhermum.

Leikið var um titilinn í fyrsta skipti í fyrra. Saga Traustadóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson eru núverandi Landsmeistarar í golfhermum. 

Sannarlega skemmtileg keppni fyrir íslenska kylfinga í vetraróveðrinu. Keppnin er öllum opin og geta keppendur hafið leik eftir að hafa skráð sig inn í Trackman hermi með sínum aðgangi. Smellt er á valmöguleikann „Tournaments“ og í framhaldi Landsmót í golfhermum, fyrri undankeppni. Í undankeppni greiða þátttakendur fyrir notkun í hermi þar sem við á. Ekkert aukagjald er tekið fyrir þátttöku í mótinu. 

Í karlaflokki er Sigurður Arnar úr GKG í forystu á -8 eða 63 höggum, en alls eru 29 karlar búnir að leika í keppninni. Í kvennaflokki leiðir Erla Rún á 76 höggum. 

Kylfingar eru hvattir til að vera með í þessu stórskemmtilega móti. Aðgangur að golfhermum er góður og skemmtilegasti golfvöllur landsins, Grafarholtsvöllur er leikinn.

Meðal annars er hægt að leika á eftirfarandi stöðum (listinn er ekki tæmandi):

Íþróttamiðstöð GKG (gkg.is), Golfhöllinni á Granda (golfhollin.is), Golfsvítan (www.golfsvitan.is), Golffélagið (golffelagid.is), Tveir undir (tveirundir.is), Golfstöðin (golfstodin.is), Gullkylfan (gullkylfan.is), Golfklúbbur Selfoss (gosgolf.is), 

Staðan í karlaflokki er hér.

Staðan í kvennaflokki er hér.

Sjá hér nánari upplýsingar um keppnina