Fréttir

Sam Burns holukeppnismeistari
Mánudagur 27. mars 2023 kl. 07:32

Sam Burns holukeppnismeistari

Ekkert varð af því að draumaúrslitaleikur liti dagsins ljós á Austin Country Club í Texas á lokadegi WGC Dell heimsmótsins í holukeppni. Væntingar golfáhugamanna voru að Rory McIllroy og Scottie Scheffler myndu eigast þar við en raunin varð önnur.

Scottie Scheffler jafnaði í undanúrslitum við góðvin sinn Sam Burns á 18. holu til að koma leiknum í bráðabana. Scheffler hafði mest náð 2 holu forskoti í leiknum en Burns sem hafði byrjað með látum og náð 3 holu forystu snemma í leiknum. Hann missti það niður en náði aftur forystu sem hann missti svo aftur á 18. Á þriðju holu í bráðabana landaði hann loks sigri.

Undanúrslitaleikur Rory McIllroy og Cameron Young var í meiri járnum. McIllroy hafði forystu mest allan leikinn og var 2 holur upp þegar 3 holur voru eftir. Young vann 16. og 18. Jafnaði þar leikinn og sigraði svo á fyrstu holu í bráðabana.

Draumaúrslitaleikurinn var því að engu orðinn. Varð að úrslitaleik um 3. sætið, þar sem Rory McIllroy sigraði 2&1.

Sam Burns var maður gærdagsins því í úrslitaleiknum rúllaði hann yfir Cameron Young. Leiknum var lokið á 13. holu. 6&5 einn af stærstu sigrum mótsins. Á 10 holu kafla í úrslitaleiknum frá þeirri 4. til 13. fékk Sam Burns 8 fugla. Það réði Cameron Young ekki við og Sam Burns fær því þann mikla heiður að verða síðasti World Golf Championships (WGC) meistarinn. Scottie Scheffler sem vann þetta mót í fyrra átti möguleika á að verða annar kylfingurinn í sögunni til að verja titil á WGC mótunum en það tókst ekki og uppúr stendur að sá eini sem gerði það nokkrum sinnum er enginn annar en Tiger Woods.

Fjölmargir leikmenn á PGA mótaröðinni hafa stigið fram og lýst yfir að eftirsjá verði eftir holukeppninni en þetta er eina mót ársins þar sem leikið hefur verið með holukeppnisfyrirkomulagi, en það er hið upphaflega keppnisfyrirkomulag golfsins.

Sjá úrslitin hér.