Fréttir

Pólverji meðal bestu í Evrópu - þriðji sigurinn
Meronk er að upplifa stóra drauminn í golfinu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 8. maí 2023 kl. 10:47

Pólverji meðal bestu í Evrópu - þriðji sigurinn

Pólverjinn Adrian Meronk er aldeilis að skrifa sig í sögubækurnar en hann sigraði á Opna ítalska mótinu á DP Evrópumótaröðinni eftir harða keppni við tvo Frakka. Þetta var þriðji sigur Pólverjans á mótaröðinni og hann á núna ágæta möguleika á að komast í Ryderlið Evrópu sem keppir á sama golfvelli í Róm í september. Guðmundur Ágúst Kristjánsson var meðal keppenda á mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Meronk hélt haus á lokaholunum þegar hann fékk fugl á 16. og 18. holu og bjargaði pari á 17. braut. Romain Langasque gerði sér vonir um sigur þegar hann vippaði ofan í holu á sautjándu en vantaði högg upp á til að ná Pólverjanum en þeir fengu báðir fugl á lokaholunni. Þriðji var forystusauðurinn eftir þrjá hringi, Julien Guerrier en hann náði sér ekki á strik á lokahringnum.

Meronk sagði eftir mótið að markmiðið og draumur hans væri að komast í Ryderliðið. Hann vakti athygli þegar hann komst inn á Mastersmótið í vor og var meðal forystusauða á fyrsta deginum um tíma. Meronk er fyrsti kylfingurinn frá Póllandi að komast í hóp bestu, og fá þátttökurétt á DP röðinni og komast á mót í Bandaríkjunum.

Lokastaðan.