Fréttir

Óvissa um opnun golfvalla á höfuðborgarsvæðinu
Miðvikudagur 10. maí 2023 kl. 08:39

Óvissa um opnun golfvalla á höfuðborgarsvæðinu

Einhver versti vetur á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir hefur komið harkalega niður á golfvöllunum. Nú er svo komið að enginn af golfklúbbunum á svæðinu hefur gefið út formlega tilkynningu um hvenær opnunar sé að vænta á golfvöllunum. Líklegt verður því að teljast að golfþyrstir kylfingar á höfuðborgarsvæðinu þurfi að leita enn um sinn til Suðurnesja eða á suðurlandið til að leika golf. Vonir standa til að hægt verði að opna vellina í kringum 20. maí.

Í fréttabréfi sem Golfklúbbur Reykjavíkur hefur sent til félagsmanna sinna kemur fram að vallarstarfsmenn vinni hörðum höndum að undirbúningi fyrir opnun vallanna. GR hefur staðið í miklum framkvæmdum á Grafarholtsvelli í vetur sem hafa að sögn gengið vel, en ekki var hægt að fá efni úr námum til að halda fullum gangi í verkefninu. GRingar gera ráð fyrir að opna nýja og glæsilega 18. braut í júnímánuði en framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í nóvember 2021.  Klúbburinn kappkostar að opna velli sína sem fyrst en tekur fram að gróður sé um 4-5 vikum síðar á ferðinni en í fyrra.

Í sama streng er tekið í fréttabréfi sem GKG sendir sínum félagsmönnum en þar segir að sumar flatir séu illa farnar eftir veturinn og enn hafi ekki verið ákveðin dagsetning á opnun Leirdalsvallar þar sem hann eigi nokkuð langt í land. Staðan sé metin daglega.

Þar segir vallarstjórinn Guðmundur Árni Gunnarsson: „Veturinn var einstaklega kaldur og einnig einkennilegur í marga staði. Við fengum snjó yfir völlinn seinnipartinn í desember sem var að verja hann nokkuð vel fyrir ágangi kuldans og engin klaki var undir þeim snjó sem er gott. Um mánaðarmót febrúar/mars kom það sem ég vill kalla svikavor og fór allur snjór með góðum hlýindum í um tvær vikur, völlurinn kom nokkuð grænn og fínn undan þessum snjó og allt lofaði nokkuð góðu. En svo kom frostið aftur með vind með sér og tel ég að þá höfum við orðið fyrir vind kali á mörgum stöðum. Þetta er ekkert einsdæmi hjá okkur heldur nær þetta nokkuð heilt yfir höfuðborgarsvæðið. Vallarstjórar á svæðinu eru í góðu sambandi og bera saman bækur sínar.“

Þann 2. maí síðastliðinn var borið á golfvelli hjá GM og voru þá væntingar um að opna báða velli klúbbsins 13.-14.maí, en áður hafði klúbburinn gefið út að Hlíðavöllur yrði opnaður þann 6.maí en þær væntingar brugðust. 

Ástandið hjá Golfklúbbnum Oddi er eins og hjá hinum erfitt eftir veturinn.

Sannarlega krefjandi vor fyrir golfvallastjóra. Óskandi fyrir alla kylfinga hlýindi berist sem fyrst til landsins svo vellirnir taki vel við sér. Á meðan láta kylfingar sér æfingasvæðin duga en aðsókn í  Bása í Grafarholti stærsta æfingasvæði landsins hefur aukist gríðarlega í vor. Þar geta kylfingar slegið bolta í út á æfingasvæði og fylgst með lengdum og upplýsingum í gengum Trackman Range kerfi sem er eitt það fullkomnasta í heiminum, en í vetur hafa verið settir upp skjáir og hitarar þannig að aðstaða til æfinga er í alla staði frábær. Í Trackman Range kerfinu er hægt að spila golfvelli á 1. hæðinni í Básum í útigolfhermum ef svo má segja.