Fréttir

Ótrúlegur endir á PGA móti - Willet þrípúttaði metra
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 19. september 2022 kl. 14:50

Ótrúlegur endir á PGA móti - Willet þrípúttaði metra

Það voru ótrúleg lok á fyrsta PGA móti nýrrar keppnistíðar 2022-2023 þegar Bandaríkjamaðurinn Max Homa varði titil sinn á Fortinet mótinu sem lauk í gær. Homa vippaði í utan við flöt um tíu metra frá stöng fyrir fugli. Skömmu áður hafði Englendingurinn Danny Willet slegið um 60 metra högg um einn metra frá. Hann átti það pútt eftir fyrir sigri á mótinu en hann ekki bara missti púttið heldur þrípúttaði hann og missti einnig af bráðabana.

„Þetta var klikkað,“ sagði Homa eftir þennan ótrúlega sigur. Hann var einu höggi á eftir Englendingnum á seinni níu holunum en á par 5 holunni, átjándu, eftir þrjú högg, virtist þetta vera í höndum Willetts sem vann Masters árið 2016. En þegar Homa vippaði ofan í holu setti hann pressu á Willett sem brosti þegar hann sá vippið fara ofan í. Þetta gerði metrapúttið hans tíu sinnum erfiðara og það raungerðist. Púttið var alltof fast og snerist upp úr holunni og endaði enn lengra frá. Púttið fyrir að komast í bráðabana gegn Homa geigaði líka. Ótrúlegt!

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Homa er einn heitasti kylfingurinn í dag og hefur unnið þrjú mót á PGA mótaröðinni á þessu ári. Hann er í Forsetabikars-liði Bandaríkjanna sem mætir úrvalsliði heimsins utan Evrópu innan skamms.

Lokastaðan.