Fréttir

Ný súperstjarna í golfinu?
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 25. september 2022 kl. 10:43

Ný súperstjarna í golfinu?

Tom Kim, tvítugur kylfingur frá Suður Kóreu hefur vakið athygli í Forsetabikarnum fyrir líflega framkomu og skemmtileg „fögn“. Hann átti sviðið í síðasta leik þriðja keppnisdags á Quail Hollow vellinum í Charlotte í Bandaríkjunum þegar hann tryggði Alþjóða liðinu sigur í viðureigninni og minnkaði muninn í 11-7.

Bandaríkjamenn og Alþjóða liðið sem skipað er kylfingum utan Evrópu eigast við í skugga LIV mótaraðarinnar þar sem margir af bestu kylfingum heims hafa snúið til og misstu þannig möguleika sína á að vera liðsmenn í Forsetabikarnum og líklega Ryder bikarnum líka. Þrátt fyrir það er stemmningin góð og mikill áhorfendafjöldi á Quail Hollow vellinum.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

En aftur að þessum unga Kóreukylfingi. Hann hefur fagnað eins og fyrir sigri í Heimsmeistarakeppninni í nokkur skipti og vakið aðdáun fyrir það. Í lokaviðureign laugardagsins var Kim í fjórbolta með nafna sínum Si Woo Kim. Þeir voru að keppa við ósigrað lið Schauffele og Patrick Cantley og staðan var jöfn á lokabrautinni. Nýliðinn frá Kóreu var 220 metra frá stöng og sló með 2-járni og negldi boltann inn á flöt og svo setti hann púttið niður með þessum mögnuðu fagnaðarlátum. Alþjóðaliðið vann fjórboltakeppnina eftir hádegi 3-1 en fjórleikurinn endaði jafn 2-2 um morguninn en fram að því voru Bandaríkjamenn með sex vinninga forystu eftir frábæra byrjun.

„Ég horfði á púttið og mig langaði ekki í neitt meira í heiminum en að setja það ofan í. Það skipti okkar lið miklu máli að minnka muninn og nú þegar hann er bara fjórir vinningar er allt mögulegt fyrir lokadaginn,“ sagði Kim brosandi.

Trevor Immelmann, fyrirliði Alþjóðaliðins er í skýjunum með liðsmanninbn frá Kóreu. „Hann er mikil gjöf til íþróttarinnar. Hann hefur allt til að vera súper stjarna. Ég hitti hann fyrst í sumar á Opna mótinu en hef kynnst hann persónuleika í Forsetabikarnum og það segir mér að hann á framtíðina fyrir sér. Ég er mikill aðdáandi hans.“

Á lokadegi mótsins er leikið í tvímenningi.