Fréttir

Nelly Korda skiptir um föt
Sunnudagur 15. janúar 2023 kl. 08:40

Nelly Korda skiptir um föt

Í janúarmánuði verða yfirleitt stærstu breytingar á mótaröðunum hvað varðar fata- og búnaðarsamninga. Kylfusamningar renna formlega út og tilkynningar um nýja samstarfssamninga eru gefnar út. Þetta hefur verið algengt í karlagolfinu, en núna ekki síður í kvennagolfinu. 

Tveir öflugustu kylfingarnir á LPGA Brooke Henderson og Nelly Korda oeru að skipta um samstarfsaðila á þessu ári. Nelly Korda kynnti nýlega á samfélagsmiðlum nýjan fatasamning við Nike Golf en áður var hún í samstarfi við sænska framleiðandann J.Lindeberg. Nike Golf hætti að framleiða golfkylfur árið 2016 en eru áfram sterkir í golffatnaði með stjörnur eins og Tiger Woods, Rory McIllroy, Tony Finau, Brooks Koepka og Jason Day á mála.

Korda birti myndir af sér á samfélagsmiðlum í Nike peysu og með Nike hanska, en derhúfuna sem ber stærsta og besta auglýsingaplássið vantaði alveg. Eins var ekki hægt að sjá hvaða kylfutegund hyggst nota.  Líklegt þykir að hún verði á mála hjá Taylor Made og það verði tilkynnt innan tíðar. Áður var hún ásamt Danielle Kang eitt af aðalnúmerum Titleist á LPGA mótaröðinni. Talið er að Brooke Henderson muni einnig fara til Taylor Made sem hafa tekið gæði umfram magn í samstarfssamningum við atvinnukylfinga undanfarin ár en þar eru á mála Woods, McIllroy og Scottie Scheffler og ekki skemmir að fá leikmenn nr. 2 og 7. á styrkleikalista LPGA mótaraðarinnar.