Fréttir

Milljón í vallargjöld
Sunnudagur 29. janúar 2023 kl. 15:40

Milljón í vallargjöld

Hæstu vallargjöld á Íslandi eru í kringum 15.000 krónur. Það verður að teljast nokkuð hóflegt sé miðað við bestu golfvellina á Bretlandseyjum. Ætli kylfingur sér að leika 20 bestu golfvellina á Bretlandi og Írlandi samkvæmt lista Golf World, þá þarf viðkomandi að vera tilbúinn að greiða ríflega eina milljón krónur í vallargjöld. Dýrasti völlurinn af þeim 20 bestu er Trump Turnberry golfvöllurinn á vesturströnd Skotlands. Opna brezka mótið hefur verið leikið á Turnberry nokkrum sinnum. Árið 1977 háðu Tom Watson og Jack Nicklaus þar sögufrægt einvígi og litlu munaði svo að Tom Watson næði að verða elsti kylfingurinn til að vinna risatitil þar árið 2009 en tapaði fyrir Stewart Cink eftir 4 holu umspil. 

Trump Turnberry völlurinn var endurhannaður á árunum 2014-2016 af Tom McKenzie sem hefur unnið við endurhönnun golfvalla hér á landi m.a. hjá Golfklúbbnum Keili og hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.

Efsta völlinn á listanum, Royal County Down er hægt að leika fyrir litlar 57.000 krónur.  Ódýrasti völlurinn á topp 20 listanum er North Berwick (West Links). Vallargjaldið þar er 35.000 krónur sem verður að teljast gjöf en ekki gjald miðað við alla hina því sá golfvöllur sem er rétt austan Edinborgar er frábær.

Gamli völlurinn í St. Andrews kostar 52.000 kr. Mikil eftirspurn er eftir að leika völlinn en allir kylfingar eiga möguleika að komast þar að í gegnum svokallað Ballot sem lesa má um hér.

Sjá vallargjöldin á 20 bestu golfvöllunum.

1. Royal County Down (Championship): 57.000
2. Muirfield: 57.000
3. St Andrews (Old): 52.000
4. Trump Turnberry (Ailsa): 83.000
5. Royal Portrush (Dunluce): 52.000
6. Royal Birkdale: 56.000
7. Carnoustie (Championship): 49.500
8. Royal St George’s: 48.000
9. Portmarnock: 46.500
10. Royal Lytham & St Annes: 55.000
11. North Berwick: 35.000
12. Royal Dornoch (Championship): 35.000
13. Skibo Castle: Hafið samband
14. Sunningdale (Old): 57.000
15. Woodhall Spa (Hotchkin): 36.000

16. Sunningdale (New): 57.000
17. Kingsbarns: 65.500
18. Walton Heath (Old): 46.500
19. Royal Liverpool: 57.000
20. Ballybunion (Old): 46.500