Fréttir

Loksins sigur eftir 134 tilraunir - fékk 500 millj. króna
Wyndham Clark fékk rétt tæpar 500 milljónir króna fyrir fyrsta sigurinn á PGA mótaröðinni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 8. maí 2023 kl. 10:33

Loksins sigur eftir 134 tilraunir - fékk 500 millj. króna

Eftir þátttöku í 134 mótum á PGA mótaröðinni fagnaði Wyndham Clark sigri í fyrsta sinn. Clark lék frábært golf, alla hringi undir 70 höggum (-19) og var fjórum höggum á undan Zander Schauffele sem endaði í 2. sæti í ellefta skipti í 152 mótum. Hann hefur reyndar sigrað sjö sinnum á PGA röðinni.

Tveir Englendingar, Tyrell Hatton og Tommy Fleetwood voru í 3. og 4. sæti en þeir hafa náð góðum árangri á mótaröðinni að undanförnu. Hatton hefur sigrað einu sinni og hefur í 116 mótum unnið sér inn 2,7 milljarða króna.  Fleetwood hefur aldrei á PGA mótaröðinni en tekið þátt í 116 mótum og unnið sér inn um 2,3 milljarða króna. Það er því hægt að gera það þokkalegt þó maður vinni ekki mót á PGA.

Clark vann sér inn þokkalegan aur og fékk tæplega 500 milljónir króna fyrir sigurinn.