Fréttir

Leikmenn LIV fá að spila á Masters
Fimmtudagur 12. janúar 2023 kl. 13:47

Leikmenn LIV fá að spila á Masters

Stjórnendur Augusta National golfklúbbsins og Masters mótsins ákváðu í ársbyrjun að þeir leikmenn á LIV mótaröðinni sem ættu þátttökurétt á Masters mótinu samkvæmt þeim keppnisskilmálum sem væru í gildi fengju að taka þátt í mótinu. Slagurinn milli PGA mótaraðarinnar og LIV ætti að vera flestum golfáhugamönnum kunnur, en þessi ákvörðun stjórnenda Masters mótsins gefur LIV mótaröðinni byr undir báða vængi. Fjölmargir kylfingar sem hafa flutt sig yfir á LIV mótaröðina eiga þátttökurétt á Masters mótinu. 

Bubba Watson, Phil Mickelson, Dustin Johnson, Sergio Garcia, Patrick Reed og Charles Schwartzel hafa allir klæðst græna jakkanum á Masters og eiga því ævilangan þátttökurétt á mótinu. Cameron Smith á þátttökurétt fyrir að hafa sigrað á Opna mótinu 2022, Bryson DeChambeu og Brooks Koepka eiga þátttökurétt fyrir að hafa sigrað á Opna bandaríska og PGA meistaramótinu á síðastliðnum 5 árum Talor Gooch og Joaquin Niemann eiga þátttökurétt fyrir að hafa verið á topp 50 á heimslistanum og komist inn á lokamót PGA mótaraðrinnar áður en þeir færðu sig yfir á LIV. Louis Oosthuizen, Kevin Na, Abraham Ancer og Harold Varner III fá allir boð fyrir að vera meðal 50 efstu á heimslistanum.

Hvort að stjórnendur Mastersmótsins munu breyta keppnisskilmálum til að gera leikmönnum LIV mótaraðarinnar erfiðara að komast inná Mastersmót framtíðarinnar á eftir að koma í ljós, en víst er að komi sigurvegarinn á næsta Masters móti frá LIV mótaröðinni muni það styrkja hana í sessi.

Áhugaverð 8 mínútna kynning um sögu mótsins og málið er hér meðfylgjandi.