Fréttir

Koepka bestur á PGA og vann sinn fimmta risatitil
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 21. maí 2023 kl. 23:27

Koepka bestur á PGA og vann sinn fimmta risatitil

Bruce Koepka vann sinn þriðja PGA titil og fimmta risatitil á Oak Hill vellinum í New York. Keopka lék frábært golf allt mótið en háði harða keppni við Norðmanninn Victor Hovland sem endaði jafn í 2. sæti.

Lokahringurinn var frábær skemmtun og var í raun einvígi milli Koepka og Hovland en sá fyrrnefndi fékk 3 fugla á fyrstu fjórum holunum og náði þriggja högga forskoti snemma hrings. Norðmaðurinn náði að minnka það í eitt högg um tíma en Koepka, sem gekk í fyrra til liðs við LIV mótaröðina, gerði nánast engin mistök, að tveimur slökum upphafshöggum undanskildum, - og kláraði mótið með stæl. Aðeins höggi munaði á þeim félögum á 16. braut þegar Norðmaðurinn gerði slæm mistök í brautarglopmu en það kostaði hann tvö aukahögg. 

Koepka var með þriggja högga forskot þegar tvær holur voru eftir og sigraði að lokum með tveggja högga mun og vann sinn þriðja PGA titil. Koepka var í lokaráshópi á Masters en lék ekki vel í lokahringnum. Nú var hann öryggið uppmálað í nær öllu sem hann gerði og tryggði sér sigur. 

Einn af tuttugu bandarískum golfkennurum sem unnu sér þátttökurétt á PGA mótinu, Mickael Block varð í 15. sæti og fór holu í höggi á 15. braut og var með Rory McIlroy í ráshópi. Hann fékk509 milljónir í verðlaunafé og þátttökurétt á mótinu á næsta ári. Frammistaða golfkennarans nánast skyggði á sigurvegaranna Koepka.

Lokastaðan.