Fréttir

Jon Rahm ósáttur
Miðvikudagur 22. mars 2023 kl. 07:28

Jon Rahm ósáttur

Spánverjinn Jon Rahm sem er í öðru sæti á heimslistanum í golfi fer fram á það við PGA mótaröðina að holukeppni verði áfram hluti af mótaröðinni. WGC-Dell holukeppnin er nú haldin í síðasta skipti.

Sextíu og fjórir kylfingar hefja leik í dag á WGC-Dell holukeppninni í Austin í Texas. Rahm er í riðli með Ricky Fowler, Billy Horchel og Keith Mitchell. Allir leika við alla í riðlinum og sá leikmaður sem er í efsta sæti riðilsins að því loknum kemst áfram í útsláttarkeppni. Alls er leikið í 16 fjögurra manna riðlum. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudagseftirmiðdag.

„Ég elska holukeppni og er mjög spenntur fyrir mótinu. Það er sorglegt að þetta sé síðasta skiptið sem leikið er með þessu fyrirkomulagi. Vonandi fáum við aftur holukeppni á næsta ári. Þetta er í raun eina mótið fyrir utan Ryder bikarinn sem maður fær að keppa eingöngu við þann sem er með manni í ráshópi. Það finnst mér miklu skemmtilegra.“ segir Jon Rahm um mótið.

Scottie Scheffler sem er efstur á heimslistanum bætti við: „Ég elska holukeppni. Hún er svo einföld. Þú bara mætir og reynir að sigra kylfinginn sem er á móti þér. Frábært fyrirkomulag“.

Fylgist með holukeppninni hér.