Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Ísland keppir á heimsmeistaramóti stúlknalandsliða í Kanada
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 6. október 2023 kl. 07:35

Ísland keppir á heimsmeistaramóti stúlknalandsliða í Kanada

Íslenska stúlknalandsliðið í golfi keppir á heimsmóti stúlknalandsliða 2023, World Junior Girls Championship, sem fram fer á Brampton vellinum í Kanada dagana 4.-7. október. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensku liði er boðið að taka þátt á þessu móti.

Alls eru 21 þjóðir sem taka þátt, tvö lið eru frá Kanada og eru liðin því alls 22 og eru keppendur eru 66 alls.

Mótið er einstaklings – og liðakeppni. Leiknar verða 72 holur í höggleik. Tvö bestu skorin telja á hverjum hring í liðakeppninni.

Örninn 2025
Örninn 2025

Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, Helga Signý Pálsdóttir, GR og Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, skipa lið Íslands. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, og Baldur Gunnbjörnsson sjúkraþjálfari, eru með íslenska liðinu í Kanada.

1. keppnisdagur:

Perla Sól lék á -1 eða 70 höggum. Hún er í 5. sæti í einstaklingskeppninni, og aðeins tveimur höggum frá efsta sætinu. Helga Signý lék á 82 höggum eða +11 og er hún í 60. sæti og Pamela Ósk lék á 85 höggum (+14) og er hún í 63. sæti. Í liðakeppninni er Ísland í 19. sæti.

Mótið er mjög sterkt og átta keppendur eru á meðal 100 efstu á heimslista áhugakylfinga. Spánn hefur titil að verja en þetta er í sjöunda sinn sem mótið fer fram.

Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni fær boð um að taka þátt á CPKC LPGA atvinnumótinu sem fram fer dagana 22.28. júlí 2024 á Earl Grey vellinum í Calgary.

Liðin sem taka þátt eru: Austurríki, Belgía, Kanada (2), Taiwan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, England, Finnland, Þýskaland, Ísland, Ítalía, Mexíkó, Perú, Pólland, Suður-Kórea, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bandaríkin, Wales.

Ólafur Björn segir að samkvæmt heimslista áhugakylfinga þá mótið í Kanada það sterkasta í heimi fyrir stúlkur 18 ára og yngri

„Við erum afar þakklát að fá tækifærið að keppa á stærsta sviðinu og mætum full tilhlökkunar til leiks. Það eru spennandi keppnisdagar framundan. Stelpurnar hafa leikið tvo góða æfingahringi á vellinum og undirbúið sig vel. Völlurinn er 5811 metra langur „parkland“ völlur og er býsna krefjandi. Þröngar brautir, þykkur kargi og flatirnar hraðar (um 11 á stimp). Völlurinn reynir á alla þætti leiksins, verðlaunar góð högg og refsar slæmum. Hann er í toppstandi, allt eins og best er á kosið. Umgjörðin er mjög flott og greinilega mikill metnaður að búa til góða upplifun. Ég hef til að mynda aldrei áður séð framverði (e. forecaddy) á öllum brautum vallarins áður og hvað þá á æfingahringjum. Vissulega óþarfi að mínu mati en ágætt dæmi um metnaðinn hjá mótshöldurum,“ sagði Ólafur, eins og fram kemur á síðu Golfsambands Íslands.

hér er hægt að sjá rástíma, stöðu og úrslit í einstaklingskeppninni

hér er hægt að sjá stöðu í liðakeppninni

Kylfingur.is mun fylgjast með gangi mála.