Fréttir

Hornfirðingar með eina 1.maí mótið
Mánudagur 1. maí 2023 kl. 10:05

Hornfirðingar með eina 1.maí mótið

Veðrið er sannarlega að gera íslenskum kylfingum lífið leitt. Svo leitt að einungis eitt fyrsta maí mót er leikið í dag. Það er á Silfurnesvelli á Höfn í Hornafirði.

Golfvellirnir í Þorlákshöfn og á Hellu eru báðir lokaðir vegna snjóalaga á völlunum en þessir vellir eru þekktir fyrir það að vera tilbúnir til leiks snemma á vorin. Fyrsta maí mótin á Hellu voru hér á árum áður merkisberi opnunar golfvalla á Íslandi. Ástand golfvalla á landinu er mjög mismunandi og ástand sumra valla á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið jafn slæmt í áraraðir enda versti vetur í um 50 ár á svæðinu. 

Búast má við harðri keppni á Hornafirði í dag en nokkrir af bestu kylfingum klúbbsins eru skráðir til leiks, lágforgjafarmennirnir Halldór Steinar Kristjánsson, Óli Kristján Benediktsson, Kristinn Justiniano Snjólfsson og Guðjón Björnsson. Kristinn sem er betur þekktur fyrir takta sína á knattspyrnuvellinum er nýkominn til landsins úr stífum æfingabúðum í Portúgal þar sem hann lék vel. Fín þátttaka er sömuleiðis í kvennaflokki þar sem má búast við harðri baráttu milli Jónu Bennýar Kristjánsdóttur og Bergþóru Ágústsdóttur. Spennandi verður að fylgjast með keppni dagsins en úrslit má nálgast hér.