Fréttir

Guðrún Brá vinnur í sveiflunni - líklega aftur í úrtökumót fyrir LET
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 12. september 2022 kl. 15:58

Guðrún Brá vinnur í sveiflunni - líklega aftur í úrtökumót fyrir LET

„Þetta var svipað síðustu þrjár vikur, slátturinn alls ekki nógu góður og það kann ekki góðri lukku að stýra,“ sagði Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, eftir að hafa misst af niðurskurðinum sjöunda mótið í röð frá því í júní. 

Guðrún hefur leikið á 17 mótum og ekki komist í gegnum niðurskurðinn í tíu mótum, þar af síðustu sjö sem öll voru í júní til ágúst. Það er smá möguleiki að hún komst í mót á næstu þremur vikum en annars bíður hennar úrtökumót fyrir mótaröðina í desember.

Hún er í 156. sæti á stigalistanum og hefur unnið sér inn um 13 þúsund evrur á árinu, tæpar 2 milljónir króna. Besti árangur hennar var 27. sæti á móti í Ástralíu en hún var einnig í 10. sæti í liðakeppni í Bankok 12. maí og í 55. sæti í einstaklingskeppninni. Henni gekk mun betur í fyrra og var í fínni stöðu eftir keppnistíðina í árslok 2021.

„Ég er komin heim og er spennt að vinna í því sem ég þarf að laga,“ sagði Guðrún Brá sem stefnir ótrauð áfram í atvinnumennsku á hæsta stigi í Evrópu.

Árangur Guðrúnar 2022.