Fréttir

Guðmundur Ágúst með frábæran -7 hring - er jafn í 2. sæti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 12. nóvember 2022 kl. 17:19

Guðmundur Ágúst með frábæran -7 hring - er jafn í 2. sæti

Bjarki Pétursson hefur ekki náð sér á strik.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur leikið frábært golf fyrstu tvo dagana á lokaúrtökumótinu sem fram fer á Spáni.  Hann fylgdi eftir góðri byrjun á fyrsta hring með því að leika annan hringinn á 7 undir pari. Guðmundur Ágúst er jafn í 2. sæti með tveimur öðrum. Bjarki Pétursson er hins vegar í miklu basli og er neðstur. 

Tælendingurinn Kiradech Aphibarnrat er efstur eftir 36 holur í þessu mesta maraþon golfmóti sem haldið er. Kiradech er á -10 en okkar maður Guðmundur er á -9 og hefur fengið 11 fugla á 36 holunum sem er frábært. Fimm kylfingar koma svo á-8 sem sýnir vel hvað keppnin er hörð. 

Bjarki lék í dag á 10 yfir og er 16 yfir í heildina og á líklega enga möguleik á að komast í gegnum niðurskurðinn. 

Staðan eftir 36 holur.

Tuttugu efstu af 153 keppendum fá þátttökurétt á DP sem er efsta mótaröðin í Evrópu. Um helmingur af þessum 153 komust á lokastigið í gegnum 2. stigið. Það gerðu þeir Bjarki og Guðmundur og eru að keppa annað sinn á þriðja stigi. Hinn helmingurinn eru kylfingar sem náðu ekki að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni 2022. 

Leikið verður í sex daga sem fram fer á Infinitum golfsvæðnu sem er skammt frá Tarragonga á Spáni.

Eftir fjóra hringi verður niðurskurður. Keppt er á tveimur völlum, sitt hvorar 36 holurnar á Lakes og Hills völlunum. Bjarki hefur leik á Lakes og Guðmundur á Hills. 

Haraldur Franklínn Magnús var meðal keppenda á 2. stiginu en komst ekki áfram á 3. stigið. Hann er með þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu 2023 og Guðmundur Ágúst líka. Bjarki er með aðeins takmarkaðri þátttökurétt en þeir tveir, en þetta gæti breyst eftir lokaúrtökumótið.