Golfklúbbur Kiðjabergs
Golfklúbbur Kiðjabergs

Fréttir

GR karlar eiga ekki að tengja ímynd sína við rauða kvennateiga
Framkvæmdir hafa staðið yfir í Grafarholti við nýja 18. braut en opnun hennar mun seinka vegna leiðinda í veðurguðum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 24. maí 2023 kl. 20:44

GR karlar eiga ekki að tengja ímynd sína við rauða kvennateiga

Um þrjú þúsund félagsmenn í Golfklúbbi Reykjavíkur bíða í ofvæni eftir að vellir klúbbsins opni og nú styttist í það. Forráðamenn GR hafa sent tilkynningu til þeirra um að biðin sé að styttast en brýna í leiðinni fyrir sínum kylfingum að þeir leiki á teigum sem geta þeirra segir til um. Sérstaklega er þessari brýningu beint til karla sem eigi ekki að tengja ímynd sína við liti á teigum. 

„Eitt stærsta vandamálið, þegar kemur að leikhraða, er að stór hluti kylfinga leikur á teigum, sem eru of langir fyrir þá, miðað við högglengd, getu sem forgjöfin er ágætur mælikvarði á og aldur. Litmerkingar teiga eiga sér þá sögulegu skýringu að konur áttu að spila fremst (á rauðum), afrekskonur næst fremst (bláum), karlar næst aftast (gulum) og afrekskarlar aftast (hvítir, tiger), ef þannig teigar voru. Þessi hugsun er gersamlega úrelt og gerir golfið fyrir meðalkylfinginn og þá sem eru þaðan af styttra komnir í íþróttinni of erfitt, oftar en ekki að hreinu basli, þar sem höggin verða miklu fleiri en vellirnir voru hannaðir til. Annaðhvort þurfa þessir kylfingar þá að flýta sér um of eða að biðröð myndast fyrir aftan þá, sem dregur úr ánægju allra. Menn eru búnir að átta sig á þessu og sérstaklega að karlar eiga ekki að tengja ímynd við liti á teigum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Til að stemma stigu við þessu höfum við ákveðið að fylgja fordæmi margra annarra klúbba og afnema með öllu litmerkingar á teigum, en kenna þá þess í stað við lengd valla frá viðkomandi teig.

„Skorkortin okkar hafa verið aðlöguð að þessu, sem og upplýsingar í golfbox. Ný teigmerki eru í pöntun. Þangað til við fáum þau afhent verðum við að notast við gömlu merkin til bráðabirgða, en þau standa hér eftir fyrir tilgreindar lengdir valla. Við hvetjum félagsmenn okkar til að velja sér teigasett í samræmi við getu og forgjöf. Það eykur ánægju viðkomandi að skorið batni og er aukinheldur það besta sem við getum gert til að halda uppi leikhraða, sem er afar mikilvægt í golfi. Það gengur ekki að golfhringur taki mikið meira en fjóra klukkutíma, eða þann tíma sem gefinn er upp sem hámarks leiktími á velli. Með því er eyðilagt fyrir öllum sem á eftir koma. Menn kólna og pirrast við ítrekaða bið og tímaáætlanir fara úr skorðum. Það er ekki í boði að kylfingar leyfi sér að vera eins lengi og þeim einum hentar,“ segir í fréttabréfi Golfklúbbs Reykjavíkur sem verður að teljast nokkuð hressilegt, eða þannig!