Fréttir

Fyrsti Pólverjinn til að sigra á DP Evrópumótaröðinni - fékk örn ársins!
Meronk er magnaður kylfingur og fyrsti Pólverjinn til að sigra á DP Evrópumótaröðinni. Mynd/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 21. október 2023 kl. 10:20

Fyrsti Pólverjinn til að sigra á DP Evrópumótaröðinni - fékk örn ársins!

Pólverjinn Adrian Meronk var heldur betur með heppnina með sér þegar hann fékk örn á 5. braut á Andalúsíu mótinu á DP Evrópukeppninni á Spáni. Meronk var um 216 metra frá stöng á brautinni sem er par 5, „togaði“ aðeins í boltann sem var á leiðinni út fyrir vallarmörk, jafnvel í sundlaugina í næsta húsi, þegar boltinn fór í stórt eikartré alveg við vallarmörkin og skaust þaðan inn á flöt. Um tíu metra pútt Meronks fór svo beint í holu - léttur örn! Örn ársins sögðu sjónvarpslýsendur.

Meronk var nokkrum stigum frá því að vinna sig inn í Ryderlið Evrópu í haust en hann hefur sigrað þrisvar sinnum á DP Evrópumótaröðinni síðustu tvö árin. Hann sigraði á sínu fyrsta móti á Írlandi 2022 og varð fyrsti Pólverjinn til að sigra á mótaröðinni sem og að öðlast þátttökurétt.

Meronk er fæddur í Þýskalandi en foreldrar hans fluttu til Póllands þegar hann var tveggja ára. Hann stundaði nám þar fram á unglingsaldur en fór svo í háskólanám til Bandaríkjanna þar sem hann gat leikið golf við bestu aðstæður. Hann átti farsælan feril sem áhugamaður en var þrjú ár á Áskorendamótaröðinni þar til hann komst á DP mótaröðina árið 2020. Atvinnumannaferilinn hefur síðan verið á uppleið og ef hann heldur áfram að leika vel er ekki ólíklegt að hann komist í Ryderliðið árið 2025.

Hér má sjá magnaðan örn kappans á Spáni á öðrum hring á Andalúsíu mótinu.