Fréttir

Frávísun fyrir rafmagnslausan síma
Miðvikudagur 10. maí 2023 kl. 09:20

Frávísun fyrir rafmagnslausan síma

Stjórn Golfsambands Íslands hefur uppfært keppnisskilmála og staðarreglur fyrir leiktímabilið 2023. Stærsta breytingin á skilmálunum er sú að nú verður mótsstjórnum Íslandsmótanna heimilt að vísa keppendum úr leik láist þeim að skrá skor sitt rafrænt strax að leik loknum á hverri holu. 

Þessi uppfærsla á skilmálum sambandsins verður að teljast til tíðinda þar sem fá ár eru síðan að farsímar voru með öllu bannaðir á golfvöllum og eru það víða um heim ennþá. Nú er þess hinsvegar krafist af Golfsambandinu að leikmaður verður að mæta til leiks með fullhlaðinn síma, því verði hann batteríslaus meðan á leik stendur ber umsvifalaust að vísa viðkomandi leikmanni úr keppni. 

Umræður um málefnið fóru fram á fundi dómaranefndar GSÍ og meðal annars var spurt hvort að þessi reglugerðarbreyting setti þá kröfu á leikmenn að þeir kæmu til leiks með fullhlaðinn síma. Eins var spurt hvort að ef hann yrði rafmagnslaus eða bilaði hvort að það myndi valda frávísun leikmanns. Svarið er augljóst samkvæmt reglugerðinni. 

Fram kemur frá fulltrúa Golfklúbbs Mosfellsbæjar að þessar reglur verði í gildi þar í sumar. Annar dómari lýsti áhyggjum vegna þess að ýmsir krakkar sem væru að keppa væru með takmarkaða netáskrift á símum sínum.

Golfsamband Íslands kynnti fyrr á árinu lausnina rafræn skorkort og virðist það stefna sambandsins að létta allt mótahald með notkun lausnarinnar og munu keppendur þurfa að hlíta þeim reglum skrá skor áður en teighögg á næstu holu er slegið eða að öðrum kosti hljóta frávísun úr keppni.