Fréttir

Flott frammistaða hjá Haraldi Franklín í Abu Dhabi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 7. maí 2023 kl. 11:18

Flott frammistaða hjá Haraldi Franklín í Abu Dhabi

„Þetta var frábær lokahringur. Ég sló vel og var aldrei í vandræðum og náði að vinna mig upp skortöfluna. Það er gott að byrja svona vel í fyrsta móti ársins,“ sagði Haraldur Franklín en hann endaði jafn í 25. sæti á UAE Challenge á Áskorendamótaröðinni í Abu Dhabi. Haraldur endaði lokahringinn og mótið á fjórum höggum undir pari, fékk fimm fugla og einn skolla. 

„Það var rosalega heitt, minni vindur en hina dagana og völlurinn settur upp erfiðari en það var gaman að prufa að spila í Abu Dhabi. Virkilega út fyrir þægindarammann og mjög heitt.“

Hvernig er dagskráin hjá þér á næstunni?

„Það er mikið af mótum framundan. Næstu eru í Danmörku og Hollandi eftir 2-3 vikur. Ég er búinn að vera duglegur að æfa í vetur og styrkja mig.“

Er eitthvað sérstakt sem þú hefur verið að bæta í þínum leik í vetur?

„Maður er mikið að vinnna í sömu hlutunum. Það þarf að passa upp á grunnatriðin sem skipta miklu máli, grið, staðan og þetta klassíska. Ég hef t.d. verið að vinna í boltafluginu, sveigju frá vinstri til hægri og öfugt. Bæta fleiri vopnum í búrið.“

Hver eru helstu markmiðin fyrir árið? Þið á Áskorendamótaröðinni eruð allir að stefna að því að vinna ykkur upp á DP Evrópumótaröðina?“

„Ég þarf að koma mér oftar í baráttu um sigur á mótum og eins að enda í topp tíu. Það telur alltaf vel á stigalistanum og markmiðið er að enda þar meðal tuttugu efstu í lok tímabils,“ sagði Haraldur Franklín í spjalli við kylfing.is frá Abu Dhabi.

Lokastaðan.