Fréttir

Clarke kláraði líka Opna öldunga
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 25. júlí 2022 kl. 11:40

Clarke kláraði líka Opna öldunga

Norður-Írinn Darren Clarke gerði sér lítið fyrir og sigraði á Opna breska öldungamótinu sem haldið var á hinum sögufræga Gleneagles velli í Skotlandi. Clarke þurfti að fá fugl á síðustu holu til að tryggja sér sigurinn og það tókst. Hann lauk leik á tíu undir pari. Kappinn er aðeins fjórði kylfingurinn sem hefur sigrað á Opna mótinu og Opna móti eldri kylfinga.

Það rigndi duglega á gömlu kappana síðasta keppnisdaginn og þurfti að fresta leik í tæpar tvær klukkustundir þegar langt var liðið á lokahringinn. En himnarnir þögnuðu og Clarke fór út á völl og náði ætlunarverki sínu. Félagi hans frá Írlandi, Patraig Harrington, sem sigraði á Opna bandaríska öldungamótinu í síðasta mánuði, gerði harða atlögu að titlinum með svakalegu golfi á síðustu holunum en það dugði ekki til. Norður Írinn var pollrólegur í öllum „pollunum“ sem höfðu myndast í rigningunni - og klikkaði ekki þegar pressan var mest.

Clarke sigraði eftirminnilega á Opna mótinu 2011 og á að baki á sigursælum ferli marga sigra en segir að það hafi verið markmið hjá sér eftir að hann varð fimmtugur að bæta þessum titli við. 

Það voru alvöru kylfingar sem háðu harða baráttu um þennan stóra titil, Ernie Els, Colin Montgomery og fleiri. 

Clarke fer í hóp með þeim Bob Charles, Gary Player og Tom Watson en þeir eiga allir sameiginlegt að hafa tekið báða „Opnu“ titlana.