Fréttir

Bjarki í toppbaráttunni  á Spáni - ekki fengið skolla á 36 holum
Föstudagur 4. nóvember 2022 kl. 19:21

Bjarki í toppbaráttunni á Spáni - ekki fengið skolla á 36 holum

Bjarki í 8. sæti, Guðmundur í 16. og Haraldur í 35. sæti eftir 36 holur

Íslendingarnir þrír eru í ágætum málum eftir tvo hringi af fjórum á 2. stigi úrtökumótanna fyrir DP Evrópumótaröðina á Spáni. Bjarki Pétursson lék annan hringinn í röð án þess að fá skolla og kom inn á 4 undir pari og er jafn í 8. sæti á -11.

Guðmundur Ágúst lék best Íslendinganna í dag og kom inn á 66 höggum eða 6 undir pari og er jafn í 16. sæti. Guðmundur fékk 7 fugla og einn skolla.

Haraldur Franklín lék á parinu á öðrum hring, 72 höggum, fékk tvo fugla og tvo skolla. Haraldur er jafn í 35. sæti og féll niður um nokkur sæti frá því í fyrsta hring en Guðmundur fór upp töfluna. Bjarki fór niður um nokkur sæti en er þó í toppbaráttunni og aðeins tvö högg frá öðru sæti og er að leika frábært golf. Efstur er Japaninn Takumi Kanaya á -15.

Meðal keppenda á 2. stiginu eru nokkrir kunnir kylfingar, m.a. Ítalinn Matteo Manasesero en hann var mikil vonarstjarna og vann mót á Evrópumótaröðinni ungur að árum en hefur ekki verið að leika sitt besta golf undanfarin ár. Englendingarnir Lee Slattery og Oliver Fisher hafa báðir náð góðum árangri á ferlinum og eru að berjast á svipuðum slóðum og okkar drengir núna. 

Staðan eftir 36 holur.