Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Fréttir

Aldrei fleiri kylfingar á Íslandi - 35% aukning á síðustu fimm árum
Miðvikudagur 1. nóvember 2023 kl. 15:56

Aldrei fleiri kylfingar á Íslandi - 35% aukning á síðustu fimm árum

Kylfingar á Íslandi hafa aldrei verið fleiri en nú. Þann 1. júlí 2023 voru 24.201 félagsmenn skráðir í golfklúbba víðs vegar um landið. Þetta er aukning um tæplega 1000 kylfinga frá því í fyrra eða sem nemur 4% aukningu. Þetta er í fyrsta sinn sem heildarfjöldi félagsmanna fer yfir 24.000.

Kylfingum sem eru 15 ára og yngri fækkar á milli ára en í aldurshópnum 30-39 ára var aukningin um 13%. Í aldurshópnum 70-79 ára var 8% aukning og sömu sögu er að segja af aldurshópnum 80 ára og eldri.
Árið 2019 eða fyrir fimm árum voru tæplega 17.900 kylfingar skráðir í golfklúbba landsins – og hefur þeim fjölgað um tæplega 6.400 á síðustu fimm árum – sem er 35% aukning.

Eftirspurnin í golf á síðustu tvo áratugi hefur verið gríðarleg. 

Árið 2000 voru 8.500 félagsmenn skráðir í golfklúbba landsins. Á síðustu 23 árum hefur félagsmönnum í golfklúbbum landsins fjölgað um rúmlega 15.700 eða sem nemur 185%.

Golfsambandið er næst stærsta íþróttasambandið innan ÍSÍ með rúmlega 24.000 félaga en Knattspyrnusambandið er fjölmennast með um 29.000 félaga.

Fjölmennustu sérsamböndin eru:

Knattspyrnusamband Íslands (28.400).
Golfsamband Íslands (24.200).
Fimleikasamband Íslands (15.400).
Landssamband Hestamanna (12.500).
Körfuknattleikssamband Íslands (8.700).
Handknattleikssamband Íslands (7.900).
Skotíþróttasamband Íslands (6.200).
Badmintonsamband Íslands (4.800).
Sundsamband Íslands (3.800)
Frjálsíþróttasamband Íslands (3.600)